Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tuttugu og níu fylgdarlaus börn  í umsjón Suðurnesjabæjar
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
fimmtudaginn 29. desember 2022 kl. 13:00

Tuttugu og níu fylgdarlaus börn í umsjón Suðurnesjabæjar

Mikil fjölgun fylgdarlausra barna sem koma til landsins

Barnavernd Suðurnesjabæjar annast fylgdarlaus börn sem koma til landsins, eins og er eru 29 börn í þeirra umsjá en fyrir aðeins ári síðan voru þau færri en tíu. Staðsetning Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar innan sveitarfélagsmarka Suðurnesjabæjar er ástæða þess að barnaverndarþjónusta Suðurnesjabæjar sér um að sinna þeim hópi barna sem kemur með flugi og sækja um alþjóðlega vernd hjá lögreglunni í flugstöðinni. Bæjarráð Suðurnesjabæjar hefur falið bæjarstjóra að fylgja eftir málum þessa hóps með ráðherra um stöðu málaflokksins. Þetta kemur fram í bókun sem bæjarráðið lagði fram á dögunum en bókunin hljóðar svo:

„Mál fylgdarlausra barna, útlendinga í neyð og mál þar sem grunur leikur á mansali sem upp koma í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafa hingað til verið á ábyrgð barnaverndarþjónustu Suðurnesjabæjar, áður Sandgerðisbæjar, þar sem Flugstöð Leifs Eiríkssonar er í Suðurnesjabæ. Barnaverndarþjónusta sveitarfélagsins tekur við tilkynningum vegna fylgdarlausra barna og byggir málavinnslan m.a. á lögum um útlendinga nr. 80/2016 og barnaverndarlögum nr. 80/2002. Þessu mikilvæga samfélagslega verkefni hefur sveitarfélagið sinnt af alúð og metnaði síðustu áratugi og hefur mikil sérþekking skapast í kjölfarið hjá sveitarfélaginu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nú eru 32 fylgdarlaus börn í umsjá barnaverndarþjónustu Suðurnesjabæjar og innviðir komnir yfir þolmörk hvað varðar þjónustuna við börnin og búsetuúrræði. Áætlað er að 1-3 fylgdarlaus börn komi til landsins á tíu daga fresti næstu misseri og ríkir ákveðið neyðarástand. Sveitarfélagið hefur ítrekað komið því á framfæri við Mennta- og barnamálaráðuneytið að það geti ekki tekið við fleiri fylgdarlausum börnum að óbreyttu.

Suðurnesjabær skorast ekki undan því að sinna verkefninu áfram og vill sinna því með hagsmuni fylgdarlausra barna að leiðarljósi. Ríkið verður hins vegar að standa undir sinni ábyrgð í málinu með því að móta skýra stefnu og standa straum að kostnaði aukinna stöðugilda í barnavernd Suðurnesjabæjar þannig að hægt sé að tryggja þá þjónustu sem ríkinu ber að veita.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að fylgja málinu eftir með ráðherra um stöðu málaflokksins í samræmi við ofangreint.“

Mikilvægt að fylgja málunum eftir

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar segir fjölda fylgdarlausra barna vera að aukast og að innviðir og þjónustugeta sveitarfélagsins sé komin yfir þolmörk, því þurfi að byggja gott samstarf milli ríkisins og sveitarfélagsins til að tryggja góðar móttökur fyrir börnin. „Þetta er orðið það viðamikið verkefni að það er mikil áskorun fyrir jafn litla félagsþjónustu og er í Suðurnesjabæ að sinna þessum málum eins og vera ber. Við höfum verið að sækja á ríkið í von um aukinn stuðning. Fjármagn og stefnumótun sveitarfélagsins og ríkisins þarf að mæta því sem raunverulega er í gangi,“ segir Magnús. Hann bætir við að það sé ekki nóg að taka á móti börnunum heldur þarf að fylgja máli hvers og eins eftir. „Það er ekki nóg að taka bara á móti þessum börnum, það verður að taka utan um þau og veita þeim þjónustu. Þetta eru börn sem eru að koma úr allskonar aðstæðum, jafn vel með áföll sem þau hafa upplifað. Því þarf að fylgja eftir í þágu hvers barns fyrir sig.“

En hver eru næstu skref?

„Við höfum síðustu vikur verið í miklu sambandi við mennta- og barnamálaráðuneytið, sem heldur utan um málefni barna. Það hefur aðeins liðkast og ríkið er aðeins að koma til móts við okkur með því að leggja til fjármagn til að ráða fólk til starfa,“ segir Magnús og bætir við: „Næstu skref hjá mér eru að fylgja eftir bókun bæjarráðs. Ég er núna að fara í það og það er ýmislegt sem við þurfum að ræða við ríkið um þessi mál, almennt. Það er mín skoðun að í fyrsta lagi þurfum við að fá á hreint hver lögbundin skylda okkar er í þessu máli. Við erum með engu móti að skorast undan þessu verkefni, við erum eitt af örfáum sveitarfélögum sem býr að reynslu og þekkingu starfsfólks til að vinna að þessum málum og við viljum halda því áfram. Ég mun leita eftir þeirri niðurstöðu að gerður verði samningur milli sveitarfélagsins og ríkisins um þetta verkefni og að þetta verði gert með sóma. Að það verði tekið á móti börnunum, haldið utan um þau, hlúð að þeim, þeim veitt öryggi, fæði og heilbrigðisþjónusta með sómasamlegum hætti. Við viljum gera þetta vel og því verður ríkið að standa með okkur í því og bera kostnað af þessu líka.“

María Rós Skúladóttir, deildarstjóri félagsþjónustu Suðurnesjabæjar, segir verkefnið snúast fyrst og fremst um hag barnanna en mikilvægt sé að kerfin tali saman í slíkum samfélagslegum verkefnum. „Við höfum byggt upp mikla sérfræðiþekkingu í málaflokknum og tökum þetta verkefni föstum tökum. Við erum jákvæð fyrir þessu, við leggjum mikla áherslu á að hlúa vel að börnunum þannig að þau upplifi öryggi og stöðugleika. Okkar ósk er að færa þjónustuna við þau nær og geta þannig veitt þeim enn betri þjónustu. Stór hluti barnanna hefur verið staðsettur á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu og barnavernd Suðurnesjabæjar þurft að veita þeim þjónustu þar. Það tekur tíma og krafta og með því að hafa börnin í búsetu í nærumhverfinu getum við sinnt okkar starfi mun betur. Það er algert lykilatriði að kerfin virki, það eru mjög margir sem koma að málum sem þessum. En kerfin þurfa að virka, þau þurfa að ná að tala saman, eins og meginþemað er í öllum stærri verkefnum,“ segir hún.