Tuttugu milljarða framkvæmd við flugstöðina er hafin
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra tók í dag, þriðjudag, fyrstu skóflustungu að nýrri 20 þúsund fermetra viðbyggingu við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Framkvæmdir við bygginguna eru að hefjast og áformað að hún verið tekin í notkun árið 2024. Áætlaður heildarkostnaður er 20,8 milljarðar króna.
Verkefnið er mikilvægur liður í uppbyggingaáætlun flugvallarins. Þjónusta við farþega batnar og afkastageta flugvallarins eykst. Samið hefur verið við verktakafyrirtækið Ístak um jarðvinnu vegna viðbyggingarinnar, sem rísa á austur af núverandi flugstöðvarbyggingu. Áður en skóflustungan var tekin undirrituðu Sveinbjörn og Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks, verksamning um jarðvinnuna sem hefst nú af krafti.
„Það er mjög ánægjulegt að sjá þetta verða að veruleika. Ákvörðun okkar frá í vetur um að auka hlutafé í Isavia sendi skýr skilaboð um að þrátt fyrir tímabundið ástand í heimsfaraldri vissum við að bjartari tíð væri fram undan. Hlutafjáraukningin greiðir fyrir mikilvægum umbótum á Keflavíkurflugvelli og styrkir okkur enn frekar í alþjóðlegri samkeppni um þá farþega sem glaðir vilja ferðast á ný eftir faraldurinn. Um leið er þetta góða verkefni innspýting í efnahagslífið. Fjölmörg ný störf verða til, ekki síst á Suðurnesjum, en það góða svæði mun nú taka við sér af krafti eftir tímabundna lægð í faraldrinum,” segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, og starfsfólk félagsins fögnuðu þessum tímamótum á Keflavíkurflugvelli. „Flugstöð er flókinn innviður. Margt þarf að spila saman og ganga upp,“ segir Sveinbjörn. „Með þessari nýju austurbyggingu verður umbylting á farangursmóttöku og á efri hæð fæst meira verslunarrými og biðsvæðið stækkar. Þá bætast við fjögur ný hlið með landgöngubrúm sem er gríðarlega stórt skref í átt að bættri þjónustu við flugfélög og flugfarþega. Hlutafjáraukningin gerði einmitt það að verkum að við gátum stækkað umfang áður fyrirhugaðra framkvæmda og flýtt nokkrum þáttum verksins. Það á eftir að koma sér afar vel í framtíðinni.“
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra tók fyrstu skóflustunguna að stækkun flugstöðvarinnar. VF-mynd/pket.