Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 14. september 2001 kl. 10:01

Tuttugu ár frá upphafi böðunar í Bláa lóninu

Tuttugu ár eru nú liðin frá því fyrstu einstaklingarnir hófu að baða í Bláa lóninu. Upphaf böðunar í lóninu markar einnig upphaf psoriasis meðferðar við Bláa lónið. Að því tilefni var boðið til veislu sl. miðvikudag í göngudeild Bláa lónsins en þar hefur verið rekin meðferðarstofnun síðan 1994.

Jákvæð áhrif á sjúkdóminn
Árið 1981 fékk Valur Margeirsson góðfúslegt leyfi Ingólfs Aðalsteinssonar þáverandi forstjóra Hitaveitu Suðurnesja til að baða sig í lóninu sem myndast hafði í kjölfar starfsemi Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi. Valur hafði þjáðst af húðsjúkdómnum psoriasis frá unga aldri og var hann fyrstur manna til að baða sig í lóninu í lækningaskyni. Bláa lónið hafði jákvæð áhrif á húðsjúkdóminn og í beinu framhaldi hófu fleiri einstaklingar með psoriasis að baða sig í lóninu.
Grímur Sæmundssen, framkvæmdastjóri Bláa lónsins leysti Val og Ingólf út með gjöfum í boðinu sem og formenn samtaka íslensku og færeysku psoriasis samtakanna.

Höfðu vantrú á drullupollinum
Valur rifjaði upp þegar hann fór í fyrsta skipti í bað í „þessum drullupolli“, sem honum fannst lónið vera á þeim tíma. Enda höfðu ekki margir trú á að böð þar hefðu áhrif á þennan húðsjúkdóm. „Eftir fyrstu baðferðirar fann ég ekki fyrir kláða lengur, en áður hafði ég sofið illa vegna kláðans. Í dag held ég sjúkdómnum niðri eingöngu með reglulegum böðum í lóninu og Bláa lóns rakakremi. Tjöruna hef ég ekki notað í mörg ár“, sagði Valur kampakátur af þessu tilefni og dró upp mynd frá fyrstu baðferðinni.
Ingólfur lagði líka orð í belg og viðurkenndi að hann hefði nú ekki haft mikla trú á hugmyndum Vals um að baða sig í affalsvatninu sem flestir töldu mengun. Þess fyrir utan óttaðist hann að Valur myndi slasa sig á hraunnibbunum í botni lónsins. En árangurinn lét ekki á sér standa og Ingólfur sagðist hafa orðið mjög glaður þegar Valur hringdi í hann eftir fyrstu baðferðina og skýrði honum frá árangrinum.

Fjöldi meðferðargesta eykst
Göngudeildin við Bláa lónið hóf starfsemi sína árið 1994 eftir að deildin hlaut formlega viðurkenningu Íslenskra heilbrigðisyfirvalda og greiðir Tryggingastofnun hlut íslenskra meðferðargesta. Deildinni hefur vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum, að sögn Magneu Guðmundsdóttur sölu- og markaðsstjóra Bláa lónsins, og auk innlendra meðferðargesta sækja erlendir gestir einnig meðferðina.
„Tæplega 30.000 meðferðir hafa verið veittar innlendum sjúklingum og rúmlega 5000 meðferðir erlendum meðferðargestum frá því deildin hóf starfsemi sína árið 1994. Fjöldi veittra meðferða hefur aukist og eru um 5000 meðferðar veittar Íslendingum á ári nú og 1000 meðferðir veittar erlendum psoriasis sjúklingum“, segir Magnea.
Sjúkrahótel er í tengslum við deildina og hefur verið möguleiki fyrir meðferðargesti að gista þar og stunda Bláa lóns meðferðina daglega síðan árið 1997.

Árangursrík meðferð
Meðferðin á göngudeildinni byggir á samsetningu steinefna og vistkerfi blágrænna þörunga í jarðsjónum sem myndar Bláa lónið. Ómengað umhverfi og hreint andrúmsloft eru einnig mikilvægir þættir meðferðarinnar, að sögn Sólveigar Bjarkar Granz hjúkrunarframkvæmdastjóra göngudeildarinnar.
„Meðferðin felur í sér aðgang að sérstakri Bláalónsbaðlaug og farið er í laugina einu sinni til tvisvar á dag, klukkustund í senn. Dvalargestir fá skoðun og eftirlit húðsjúkdómalæknis, sérhæfða hjúkrun og eftirlit. Samhliða böðunum fara gestir í UVB ljósameðferð sem er UVB hárgreiðuljós eða blandaða UVB +A ljósameðferð. Við erum nýbúin að fá mjög fullkominn tölvustýrðan ljósaskáp á deildina, samskonar og notaður er á Húðlæknastöðinni. Hann nýtist mjög vel í psoriasis meðferðinni en einnig til að styrkja exemhúð“, segir Sólveig Björk.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024