TUNNUVÆÐING Í FÆÐINGU Í REYKJANESBÆ
SORPIÐ FLOKKAÐ OG JAFNVEL VIGTAÐ FRÁ HEIMILUMFramkvæmda- og tækniráð Reykjanesbæjar mælir eindregið með tunnuvæðingu í bæjarfélaginu sem allra fyrst eða jafnvel fyrir sumarið, samkvæmt bókun ráðsins í byrjun þessa mánaðar. Þar er lagt til að tunnuvæðing verði einn liður í sorphirðu á Suðurnesjum og muni hún hafa í för með sér aukna vinnuvernd fyrir sorphirðumenn og umgengni verði öll hreinlegri fyrir menn og umhverfi. Þá telur ráðið brýnt að verðlauna fólk fyrir flokkun á sorpi þannig að þeir sem eru með minna sorp til eyðingar fái að njóta þess. Lagt er til að komið verði upp snyrtilegum gámastöðvum í hverfum bæjarins fyrir flokkað rusl og síðan jafnvel vigtunarbúnaði til að vigta frá húsum en það gæti haft í för með sér verulega lækkun á kostnaði bæjarins við hirðingu.Bæjarfulltrúar fjölluðu um málið á bæjarstjórnarfundi sl. þriðjudag og ekki var laust við, að sitt sýndist hverjum um málið. Kristján Gunnarsson fann flest öllu til foráttu og lagði fram fleiri spurningar varðandi framkvæmdina en hægt var að svara, jafnvel þó að flokksbróðir hans Ólafur Thordersen, sérlegur sorphirðuspámaður fundarins, sæti við hlið hans í salnum. Ólafur vildi sjá þessa tunnuvæðingu gerast á næsta ári enda væru ýmsir möguleikar í stöðunni og vildi hann að farið yrði hægt í sakirnar á þessu máli.Bæjarstjórinn sagði að það lægi á borðinu að bæjarbúar sem og landsmenn allir þyrftu að fara að flokka ruslið sitt á komandi árum og margar leiðir væru í þeim efnum. Líklega yrði bærinn þó að gera langtímasamning við þann aðila sem yrði fyrir valinu í útboði því að öllum líkindum yrði sá hinn sami að fjárfesta í ýmsum nýjum búnaði og gámum til þess að mæta þessum nýju kröfum um flokkun og hirðingu. Það þyrfti m.a. að huga að endurvinnslu á lífrænum úrgangi og koma upp flokkunarstöðvum í hverfum svo eitthvað væri nefnt. Kristmundur Ásmundsson var hlynntur tunnuvæðingunni en ekki vigtuninni og Jónína Sanders ræddi um möguleikana á tvískiptum tunnum. Þá var einnig fjallað um hreinsunina á tunnunum sjálfum. Áætlað verð á 240 lítra tunnu er um 2.800 krónur og miðað við fjölda íbúða í bænum sem eru 3790 þá verður kostnaður bæjarins um 11 milljónir króna við kaupin. Hinsvegar er einnig inni í myndinni að verktakinn verði látinn leggja til tunnurnar og honum yrði síðan borguð leiga af afnotunum.