Tunglmyrkvinn sást vel
Það voru margir með myndavélarnar á lofti í morgun þegar tunglmyrkvinn sást í rúman klukkutíma. Hann sást mjög vel hér á Suðurnesjum og þessa fínu mynd tók Guðmundur Falk í morgun.
Fyrirbærið er útskýrt á Stjörnufræðivefnum.
„Tunglmyrkvar geta aðeins orðið þegar sólin, jörðin og tunglið liggja hér um bil í beinni línu. Tunglmyrkvar verða því aðeins þegar tungl er fullt og fer inn í skugga jarðar. Þrátt fyrir þetta verða tunglmyrkvar þó ekki mánaðarlega því brautarplan tunglsins og brautarplan jarðar eru ósamsíða. Tunglbrautin hallar um 5° frá braut jarðar og vegna hallans fellur skuggi jarðar yfirleitt undir eða yfir tunglið.
Skuggi jarðar er tvískiptur og því eru til þrjár gerðir af tunglmyrkvum: Almyrkvar, deildarmyrkvar og hálfskuggamyrkvar. Gerð myrkvans hverju sinni fer eftir því hvernig tunglið færist inn í skugga jarðar. Alskugginn er dimmasti hluti jarðskuggans og þar sést sólin alls ekki. Hálfskugginn er hins vegar ekki eins dimmur en innan hans sést hluti sólar.
Tunglmyrkvar sjást frá allri næturhlið jarðar, ólíkt sólmyrkvum sem sjást aðeins frá takmörkuðu svæði á jörðinni. Í þetta sinn sést myrkvinn best frá Norður-Ameríku en líka vel frá Íslandi þótt tunglið sé tiltölulega lágt á lofti á morgunhimninum í vestri. Seinast sást almyrkvi frá Íslandi aðfaranótt 21. febrúar 2008.“