Tumi komst heim fyrir milligöngu Víkurfrétta
Páfagaukurinn Tumi strauk heiman frá sér í Keflavík í gær. Eigandi Tuma er þriggja ára strákur og saknaði hann fuglsins mikið. Tumi sá greinilega eftir því að hafa strokið að heiman og bankaði uppá stofuglugga á húsi í Keflavík. Húsráðendur þar á bæ vissu að Tumi vildi komast heim og settu sig því í samband við Víkurfréttir snemma í morgun til að koma tilkynningu um fuglinn í blaðið. Um hálftíma síðar barst síðan tölvupóstur frá eiganda Tuma til Víkurfrétta þar sem lýst var eftir fuglinum og vegleg fundarlaun boðin. Tilkynningin hringdi bjöllum hjá blaðamönnum Víkurfrétta, sem könnuðust við lýsingu á fuglinum frá þeim sem hafði fundið hann. Það kom því í hlut Víkurfrétta að láta finnanda Tuma hafa símanúmerið hjá eiganda fuglsins, sem er nú kominn til síns heima, eftir flugferð um hverfi Keflavíkur.
Myndin: Tumi er sæll og glaður með að vera kominn heim eftir að hafa strokið að heiman í gær.
Myndin: Tumi er sæll og glaður með að vera kominn heim eftir að hafa strokið að heiman í gær.