Tugir slökkviliðsmanna börðust við eld í hausaþurrkun
– Ekki vitað um eldsupptök
Ásmundur Jónsson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Grindavíkur, stóð í ströngu í alla nótt við slökkvistarf í Mölvík, hausaþurrkun Stakkavíkur. Slökkvilið Grindavíkur var með allan sinn mannskap á vettvangi og naut aðstoðar slökkviliðs Brunavarna Suðurnesja sem einnig sendi allan sinn búnað til Grindavíkur og fjölmennt lið slökkvliðsmanna. Þá aðstoðaði Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík á vettvangi ásamt lögreglu.
Tilkynnt var um eldinn í Mölvík á tólfta tímanum í gærkvöldi. Þegar fyrstu menn komu á vettvang logaði upp úr þaki byggingarinnar og ljóst að erfitt slökkvistarf var framundan. Mjög fljótlega eftir að Slökkvilið Grindavíkur fékk útkall var ákveðið að kalla út aðstoð frá Brunavörnum Suðurnesja. Þaðan voru sendir tveir dælubílar og körfubíll ásamt sjö slökkviliðsmönnum en samtals voru slökkviliðsmenn á vettvangi um 30 talsins.
Slökkvistarfi er nú að ljúka í Grindavík. Liðsaukinn frá Reykjanesbæ er að koma til baka til sinnar stöðvar og grindvískir slökkviliðsmenn eru enn á vettvangi enda þarf að vakta svæðið ef eldur blossar upp að nýju.
Nálæg hús voru ekki í hættu en mikinn reyk lagði yfir iðnaðarhverfið í Grindavík. Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurnesjum fer með rannsókn brunans en eins og staðan er nú er ekki vitað um eldsupptök.
Meðfylgjandi ljósmyndir voru teknar á vettvangi brunans eftir miðnætti í nótt. Myndskeið frá vettvangi er væntanlegt á eftir. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Talsvert rauk úr þaki hússins þegar að var komið.
Björgunarsveitin Þorbjörn setti upp lokunarpósta og fengu engir óviðkomandi að komast á vettvang.
Fjölmennt slökkvilið frá Slökkviliði Grindavíkur og Brunavörnum Suðurnesja mætti á svæðið.
Aðstæður á vettvangi voru erfiðar. Talsverður vindur og svo gekk á með éljum.
Slökkviliðsmenn bera saman bækur sínar.
Björgunarsveitarmenn úr Þorbirni á vettvangi.
Sjó var dælt úr höfninni á hið brennandi hús.