Tryggja viðunandi heilbrigðisþjónustu
Víkurfréttir lögðu tvær spurningar fyrir oddvita framboða í Reykjanesbæ fyrir sveitarstjórnarkosningnar 14. maí.
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, oddviti Framsóknarflokks
Hver eru helstu málefni ykkar framboðs fyrir þessar kosningar?
Stuðla að virkni og vellíðan í samfélaginu okkar m.a. með hvatagreiðslum fyrir börn 4 ára og eldri strax, tryggja dagvistun fyrir börn frá 12 mánaða aldri í náinni samvinnu við dagforeldra, félagsmiðstöðvar í hverfin og móta tómstundastefnu eldra fólks í samvinnu við þann öfluga hóp.
Tryggja að hér sé viðunandi grunnheilbrigðisþjónustu með fjölþættum leiðum m.a. með því að fá íbúa, stjórnendur og starfsfólk HSS með okkur í lið til að bæta ímynd stofnunarinnar og laða til hennar enn fleira hæft starfsfólk. Reykjanesbær á að leiða samtölin þarna og víðar í samfélaginu, við verðum að gera þetta saman.
Byggja upp miðbæjarkjarna með fjölbreyttri verslun, þjónustu og afþreyingu í samstarfi sveitarfélagsins og einkaaðila.
Hvaða eitt, tvö málefni finnst þér vera efst á baugi hjá íbúum Reykjanesbæjar?
Að setja fram skýra framtíðarsýn í öllum málaflokkum sveitarfélagsins, þor til að framkvæma í takt við hana og að hér sé ábyrg stjórnun bæjarstjórnar sem er vinnusöm og heiðarleg.