Trillusjómanni bjargað út af Grindavík
Björgunarsveitin Þorbjörn frá Grindavík og Björgunarsveitin Suðurnes voru kallaðar út rétt um klukkan 10:30 þegar leki kom að 6 tonna trillu við Staðarberg á Reykjanesi sem er rétt vestan við Grindavík. Einn maður var um borð.
Nærstaddur bátur kom fyrstur að og tók skipverjann um borð og kom taug á milli. Var þá báturinn við það að sökkva.
Þegar björgunarskipið Oddur V. Gíslason kom á staðinn var einungis stefni bátsins uppúr og ætlar áhöfn Odds að freista þess að koma honum til hafnar í Grindavík.
Slöngubátar frá björgunarsveitinni Þorbirni eru við hreinsunarstörf á sjó og hirða upp það sem hefur flotið upp úr sokknu trillunni.
Skipbrotsmaðurinn er nú um borð í Oddi V. Gíslasyni og er hann heill á húfi. Gert er ráð fyrir að siglingin til Grindavíkur taki um fjórar klukkstundir. Svartaþoka er á svæðinu og er skyggni aðeins nokkrir metrar.
---
Mynd úr safni - Björgunarskipið Oddur V. Gíslason.