Trillukarlar kaupa makríl í beitu af veiðimönnum
Trillukarlar tryggja sér beitu með því að kaupa makríl af veiðimönnum við Keflavíkurhöfn. Hver makríll er keyptur á 20 krónur og á fjórum klukkustundum í gærkvöldi hafði einn trillukall fyllt sex stór fiskikör af makríl sem fór til frystingar. Trillukallarnir eru þó aðeins að ná hluta af þeim afla sem kemur á land í höfninni í Keflavík, því flestir veiðimennirnir fara sjálfir heim með aflann og setja í frost eða matbúa.
Fjölmörg dæmi eru um veiðimenn sem hafa heim með tugi eða hundruð fiska eftir daginn. Margir segjast láta reykja fyrir sig makrílinn, aðrir velta honum upp úr hveiti og steikja og enn aðrir grilla hann.
Meðfylgjandi myndir eru frá veiðiskapnum í Keflavíkurhöfn í gærkvöldi og eins og sjá má á myndunum þá var fjöldi veiðimanna gríðarlegur og varla hægt að segja að pláss hafi verið fyrir fleiri.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi