Treg loðnuveiði
Um 1015 tonn af botnfiski bárust á land í Grindavík vikuna 20-26 janúar. Sem fyrr voru það línuskipin sem öfluðu mest og lönduðu Albatros og Sævík tvisvar í vikunni og voru með 110-120 tonn hvor, þá landaði Páll Jónsson tæplega 100 tonnum eftir eina veiðiferð.Netabátum gekk illa í vikunni enda komust þeir ekki nema einn dag út á Tá, þar sem þeir voru að fá ufsa í vikunni áður, vegna þrálátrar austan áttar. Loðnuveiðar ganga heldur treglega sem stendur og var landað rúmlega 2000 tonnum í vikunni, stöðugar brælur eru þar einnig til travala. Tvö flutningaskip komu í vikunni, annað losaði 1600 tonn af salti og hitt lestaði 1200 tonn af mjöli, sem á að fara á Ameríkumarkað.