Travolta yfirgaf landið í svörtu reykskýi
Bandaríska ofurstjarnan John Travolta lenti Boeing 707B þotu sinni í Keflavík þegar klukkuna vantaði stundarfjórðung í sex í morgun. Hann var sjálfur við stjórnvölinn og yfirgaf ekki stjórnklefa vélarinnar á meðan tekið var eldsneyti við Leifsstöð. Kappanum snérist því hugur og hann yfirgaf landið í svörtu reykskýi þegar klukkan var rétt skriðin yfir sjö í morgun. Sem kynnugt er var búið að bóka 29 hótelherbergi fyrir kappann á hóteli í Hveragerði en John Travolta vildi sjálfur gista á Hótel Keflavík. Þar var ekki hægt að taka við kappanum þar sem ekki voru nógu mörg herbergi í boði með svo stuttum fyrirvara.Auk hótelgistingarinnar sem þarf að greiða fyrir biðu eðalvagnar og rútur eftir Travolta og fylgdarliði. Þessi rúmlega klukkustundar stans í Keflavík í morgun skilar því þó nokkrum tekjum í þjóðarbúið. Hins vegar hefði verið mun skemmtilegra að fá kappann til að slappa af á Íslandi yfir eina nótt og njóta þess sem landið hefur uppá að bjóða.
John Travolta veifaði fallega til aðdáenda sinna úr stjórnklefa vélarinnar þegar hann fór frá flugstöðinni, en gaf ekki frekara færi á sér.
John Travolta veifaði fallega til aðdáenda sinna úr stjórnklefa vélarinnar þegar hann fór frá flugstöðinni, en gaf ekki frekara færi á sér.