Torfið flaug við Flugvelli

Fyrsta skóflustungan að nýrri slökkvistöð Brunavarna Suðurnesja við Flugvelli í Reykjanesbæ var tekin í síðustu viku. Það var greinileg eftirvænting hjá herramönnunum sem tóku skóflustunguna, því eftir að stunguspaðarnir höfðu verið reknir í jörð fékk torfið að fjúka hátt í loft upp, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
 
Biðin hefur verið löng og ströng eftir nýrri slökkvistöð á Suðurnesjum en nú mun ný slík rísa við Flugvelli 29 í Reykjanesbæ. Á tuttugu árum hafa átta tillögur og ýmsar staðsetningar verið á teikniborðinu. „Þetta er langþráður draumur og það er ekki hægt að segja annað að það hafi verið legið vel og lengi yfir þessu,“ sagði Jón Guðlaugsson slökkviliðsstjóri  þegar samningur um byggingu stöðvarinnar var undirritaður á dögunum. Áætlaður kostnaður við bygginguna er 730 milljónir.
 
Ístak er verktaki að húsinu og áætla þeir að húsið verið tilbúið innan árs. Jón telur það raunhæft enda sé um öfluga verktaka að ræða sem tekist hafa á við meira krefjandi og stærri verkefni.
 
Á myndinni má sjá þegar fyrsta skóflustungan er orðin að veruleika. Hana tóku f.v. Sigurður Skarphéðinsson varaslökkviliðsstjóri BS, Magnús Stefánsson bæjarstjóri í Sameinuðu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis, Friðjón Einarsson stjórnarformaður Brunavarna Suðurnesja, Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Vogum og Jón Guðlaugsson slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja. Víkurfréttamynd: Páll Ketilsson