Tónleikar í Listasafni Reykjanesbæjar
Alexandra Chernyshova, sópran og Ingveldur Ýr Jónsdóttir, messósópran við undirleik Gróu Hreinsdóttur, píanóleikara, halda tónleika í Listasafni Reykjanesbæjar miðvikudaginn 16.júní kl. 20:00. Tónleikarnir verða á þjóðlegum nótum þar sem sungið verður á úkraínsku, rússnesku og íslensku eftir tónskáld frá viðkomandi löndum. Á efnisskrá verða m.a. alþýðu- og þjóðlög, aríur úr óiperum og rómantísk lög. Tónleikarnir eru tileinkaðir hátíðisdegi Íslands.
Alexandra Chernyshova
Alexandra er fædd í Kiev, Úkraínu árið 1979. Hún lauk tónlistaskóla, píanónámi, árið 1993. Þaðan fór hún í söngnám í tónlistaháskólanum Glier í Kíev, því námi lauk árið 1998. Frá árinu 1998 til 2000 söng hún sem einsöngvari með Úkraínsku sinfóníuhljómsveitinni í útvarpi í Kiev. Í apríl, árið 2002, var Alexandra valin besta nýja óperuröddin í keppninni “Nýtt nafn í Úkraínu”. Síðar það ár tók hún þátt í alþjóðlegri keppni óperusöngvara í Grikklandi, Rhodes og hafnaði þar í fjórða sæti, yngst keppenda. Frá árinu 1999 til 2003 stundaði Alexandra söngnám í söng akademíunni Nezdanova, Odessu / Úkraínu, kennari hennar þar og um leið yfirkennari söngdeildar var prófessor Galina Polivanova. Á þessum árum hefur hún sungið m.a. í óperustúdióinu í Odessa með sínfóníuhljómsveit. Frá janúar 2003 var Alexandra fastráðin sem einsöngvari í óperunni í Kiev. Haustið 2003 söng hún einnig einsöng með frægum landskarlakór í Úkraínu, Boyan.
Í lok október 2003 fluttist Alexandar til Íslands. Frá febrúar 2004 til apríl hélt Alexandra fjóra tónleika með píanóleikaranum Gróu Hreinsdóttur sem báru heitið Söngvalind í Reykjanesbæ, Þorlákshöfn, Garðabæ og Salnum í Kópavogi. Viðtökur voru mjög góðar og mikil ánægja var með flutning og dagskrá þeirra, m.a. hafði Ríkharður Örn tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins þetta að segja um söng Alexöndru “Í rödd söngkonunnar birtist í senn fágætt og fallegt hljóðfæri....”.
Ingveldur Ýr Jónsdóttir
Ingveldur Ýr Jónsdóttir mezzosópran er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún hóf ung ballettnám í Listdansskóla Þjóðleikhússins og síðar söngnám í Söngskólanum í Reykjavík. Þaðan lá leiðin í framhaldsnám við TónlistarskólaVínarborgar, þar sem hún stundaði einnig leiklistar og söngleikjanám. Lauk hún síðan mastersgráðu frá Manhattan School of Music í New York. Kennarar hennar voru Guðmunda Elíasdóttir, Svanhvít Egilsdóttir og Cynthia Hoffmann, auk þess sótti hún námskeið hjá m.a. Charles Spencer, Martin Katz og Phyllis Curtin. Hún hefur lokið Level One í Voice Craft hjá Jo Estill.
Ingveldur Ýr var um skeið fastráðin við Óperuna í Lyon í Frakklandi og söng þar ýmis hlutverk m.a. Dorabellu í Cosi fan Tutte, Orlovsky í Leðurblökunni, C-moll messu Mozarts, Carmen og einsmannsóperuna Miss Donnithorne´s Maggott eftir Peter Maxwell Davies. Við Bastilluóperuna söng Ingveldur Nornina í Hans og Grétu. Á íslensku óperusviði eru helstu hlutverk hennar Olga í Évgení Ónegin, Valþrúður og Fljóthildur í Niflungahringnum, Preziosilla í Á valdi Örlaganna, Dorabellu í Cosi fan Tutte eftir Mozart. Með Sumaróperu Reykjavíkur söng hún nýlega titilhlutverkið í Dido og Eneas.
Ingveldur Ýr hefur verið gestur á alþjóðlegum tónlistarhátíðum og sungið með þekktum hljómsveitarstjórum á borð við Sir Neville Marriner og Kent Nagano. Hún var sérvalinn gestur á hinni virtu Tónlistarhátíð í Tanglewood í Bandaríkjunum, þar sem hún söng á ljóðatónleikum og nútímatónlistarhátíð, auk þess sem hún söng hlutverk Mrs. Sedley í Peter Grimes eftir Britten með hljómsveitarstjóranum Seiji Ozawa. Hún söng eitt af aðalhlutverkum í frumflutningi óperunnar The Cenci eftir englendinginn Havergal Brian í Queen Elizabeth Hall í London. Hún hefur margsinnis komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands m.a. í Guðrúnarkviðu eftir Jón Leifs; Níundu Sinfóníu Beethovens og nú síðast í Carmen.
Ingveldur Ýr hefur æ meir helgað sig tónleikahaldi og hafa leiðir hennar legið um tónleikahús víða um heim auk þess sem hún hefur sungið fjölda tónleika á Íslandi. Hún lauk nýverið tónleikaferð um Kanada á vegum Þjóðræknisfélags Íslendinga í Norður-Ameríku. Hún kemur fram á geisladiskinum "Íslenska einsöngslagið" í útgáfu Gerðubergs og syngur verk Jóns Leifs á diskinum Hafís með Sinfóníuhljómsveit Íslands í útgáfu BIS.
Gróa Hreinsdóttir, píanóleikari
Undirleikari er Gróa Hreinsdóttir. Gróa er fædd árið 1956. Hún lauk píanókennaraprófi og prófi í kórstjórn frá Tónlistaskólanum í Reykjavík vorið 1982. Gróa stundaði einnig söngnám við tónlistaskólana í Keflavík og Njarðvík og Tónlistaskólann í Reykjavík.
Gróa hefur sótt námskeið í kórstjórn hjá Herði Áskelssyni, Willie Traader, John Höjby og Sue Ellen Paige. Gróa kenndi við Tónlistaskóla Njarðvíkur frá 1976 til 1984, Tónlistaskóla Skagafjarðarsýslu 1982-1983, var skólastjóri Tónlistaskóla Vatnsleysustrandarhrepps 1984-1985, kenndi við Tónlistaskóla Keflavíkur frá 1976 og Tónlistaskóla Gerðahrepps frá 1995-1997. Gróa hefur verið organisti og stjórnað fjölmörgum kórum undanfarin ár.