Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tómas Tómasson jarðsunginn
Föstudagur 4. apríl 2008 kl. 16:22

Tómas Tómasson jarðsunginn

Útför Tómasar Tómassonar, fyrrverandi sparisjóðsstjóra Sparisjóðsins í Keflavík, var gerð frá Keflavíkurkirkju í dag. Tómas lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, föstudaginn 28. mars á áttugusta og fjórða aldursári. Séra Björn Sveinn Björnsson jarðsöng. Burðarmenn voru félagar Tómasar úr Oddfellowstúkunni Nirði en Tómas var einn af stofnendum stúkunnar og fyrsti yfirmeistari hennar.


Tómas var fæddur á Járngerðarstöðum í Grindavík þann 7. júlí 1924. Foreldrar hans voru sómahjónin Jórunn Tómasdóttir, húsfreyja og Tómas Snorrason, skólastjóri og leiðsögumaðður. Tómas lauk stúdentsprófi frá MA árið 1943 og hefði því fagnað sextíu og fimm ára stúdentsafmæli í góðra vina hópi í vor. Cand. Juris prófi lauk Tómas frá HÍ árið 1950.

Tómas stundaði lögfræðistörf á Akureyri frá 1950 til 1951 auk þess að vera jafnframt ritstjóri Íslendings. Hann starfaði sem fulltrúi hjá Bæjarfógetaembættinu í Keflavík frá 1954 til 1961 en frá þeim tíma og fram til þess að hann tók við starfi sparisjóðsstjóra við Sparisjóðinn í Keflavík árið 1974, rak hann eigin lögfræðiskrifstofu og fasteignasölu í Keflavík.

Tómas vann alla tíð ötullega að félagsmálum. Hann var formaður Stúdentaráðs HÍ frá 1947 til 1948. Hann var einn af stofnendum Lionsklúbbs Keflavíkur og fyrsti formaður klúbbsins. Hann var umdæmisstjóri Lionshreyfingarinnar á Íslandi frá 1960 til 1961. Hann var einnig einn af stofnendum Oddfellowstúku í Keflavík árið 1976 og fyrsti yfirmeistari hennar auk þess að vera í yfirstjórn reglunnar á Íslandi.

Tómas var ætíð mikill áhugamaður um sveitarstjórnarmálefni og sterkur talsmaður sameiningar minni sveitarfélaga í stærri einingar. Hann var bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Keflavík frá 1954 til 1962 og síðan frá 1970 til 1986. Hann var varaforseti bæjarsjórnar frá 1954 til '62 en forseti bæjarstjórnar frá 1970 til '86. Hann var formaður bæjarráðs frá 1954 til 1962. Hann lagði hönd á plóg til margra góðra verka í sínum heimabæ.

Tómas sat í margvíslegum nefndum og stjórnum á vegum Keflavíkurbæjar og í samstarfi sveitarfélaga á Suðurnesjum. Hann var í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins frá 1975 til 1979. Árið 1978 var hann kosinn af Alþingi til setu í stjórnarskrárnefnd.

Eftirlifandi maki Tómasar er Halldís Bergþórsdóttir, húsfreyja. Börn þeirra eru fimm, barnabörnin níu og barnabarnabörnin fjögur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024