Reykjanesbær aðventugarðurinn
Reykjanesbær aðventugarðurinn

Fréttir

Tómas Þorvaldsson útgerðarmaður látinn
Fimmtudagur 4. desember 2008 kl. 08:57

Tómas Þorvaldsson útgerðarmaður látinn

Tómas Þorvaldsson, útgerðarmaður í Grindavík, lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í fyrrakvöld, á 89. aldursári. Tómas var í áratugi forystumaður í sjávarútvegi og slysavörnum, var forstjóri og síðar stjórnarformaður Þorbjarnar hf. í 47 ár.

Tómas var fæddur á Eiði í Grindavík 26. desember 1919, sonur hjónanna Þorvaldar Klemenssonar smiðs og formanns og Margrétar Tómasdóttur húsmóður, á Járngerðarstöðum.

Tómas kynntist snemma sjómennskunni. Hann réði sig sem hálfdrætting til sjós 1934 og var sjómaður hjá ýmsum til 1946 og síðan verkstjóri í fiskvinnslu í Grindavík og á Siglufirði. Árið 1953 stofnaði hann með þremur félögum sínum útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Þorbjörn hf. í Grindavík og var lengst af aðaleigandi þess og forstjóri frá upphafi til ársins 1985 að börn hans tóku við daglegri stjórn.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Hann var virkur í félagsstarfi, bæði í heimabyggð og í sjávarútvegi á landsvísu. Þess má geta að hann var formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar frá stofnun, 1947, og í þrjátíu ár. Hann var lengi formaður stjórnar Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda og sat í stjórnum Landssambands íslenskra útvegsmanna, Samlags skreiðarframleiðenda, Fiskifélags Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands, auk annars.

Kona Tómasar var Hulda J. Björnsdóttir frá Kjalvararstöðum í Reykholtsdal. Hún lést 12. janúar sl. Þau eignuðust fjögur börn, Eirík, Gunnar, Stefán Þorvald og Gerði Sigríði. Af fyrra hjónabandi átti Tómas dótturina Stefaníu Kristínu en hún lést ung.

VF jól 25
VF jól 25