Töluvert um hálkuslys
Fjögur umferðaróhöpp urðu vegna hálku um helgina í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Ökumaður sem ók eftir Garðskagavegi missti stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að hún valt. Annar ók út af milli Voga og Kúagerðis. Þriðji ökumaðurinn ók utan í vegrið á Flugvallarvegi og sá fjórði missti stjórn á bifreið sinni á hringtorgi með þeim afleiðingum að hún fór upp á torgið og á umferðarskilti sem þar var. Ekki urðu alvarleg meiðsl á fólki en talsvert tjón á ökutækjunum.
Þá var ekið á tvær mannlausar bifreiðir og létu þeir sem það gerðu sig hverfa, án þess að gera vart við sig. Lögregla hafði fljótlega upp á öðrum þeirra og hitt málið er í rannsókn.