Tollgæslan í Leifsstöð undir Tollstjórann í Reykjavík
Tollgæslan í Flugstöð Leifs Eiríkssonar mun flytjast undir embætti Tollstjórans í Reykjavík, samkvæmt heimildum Víkurfrétta. Þar verður yfirstjórn tollgæslumála a.m.k. fyrst um sinn eftir að nýtt skipulag tekur gildi þann 1. júlí í sumar.
Skipulagsbreytingar verða gerðar á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, þannig að yfirstjórn tollgæsluverkefna verði óskoruð á forræði fjármálaráðherra og yfirstjórn öryggisverkefna vegna flugverndar á Keflavíkurflugvelli verði á forræði samgönguráðherra. Löggæsla og landamæragæsla verði áfram á forræði dóms- og kirkjumálaráðherra. Engar uppsagnir eru fyrirhugaðar í tengslum við breytingarnar.
Skipulagsbreytingum er m.a. ætlað að styrkja tollgæslu, eins og segir í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu síðdegis. Þar segir einnig að lögð er áhersla á, að ekki verði hróflað við hinu nána og góða faglega samstarfi við lög- og tollgæslu á svæðinu.
Guðbjörn Guðbjörnsson, formaður Tollavarðafélags Íslands, segir engar faglegar röksemdir fyrir breytingunum í samtali við RUV nú áðan. Honum lýst ekki vel á nýjar hugmyndir.