Tóku til fótanna undan lögreglu
Ökumaður og farþegi í bifreið tóku til fótanna hvor í sína áttina, þegar lögreglan á Suðurnesjum hugðist kanna með ökuréttindi og ástand hins fyrrnefnda í vikunni.
Farþeginn, karlmaður um þrítugt, stökk inn í verslun í nágrenninu og ökumaðurinn, tæplega þrítug kona, hljóp aftur fyrir verslunarhúsnæðið.
Ástæðan fyrir hlaupunum reyndist vera ærin, því konan hafði verið svipt ökuréttindum ævilangt, auk þess sem hún viðurkenndi reglubundna neyslu á kannabis, amfetamíni og kókaíni. Það staðfestu sýnatökur á lögreglustöð.