Tóku niður skilti eftir umfjöllun Víkurfrétta
Merki sem sýna hraðatakmarkanir við Heiðarskóla í Keflavík hafa verið tekin niður í kjölfar umfjöllunar í Svörtu og sykurlausu í Víkurfréttum í gær. Þar var vakin athygli á því að samræmi vantaði á milli merkja og ökumenn bifreiða væru í raun hnepptir í álög þar sem merkið sem var uppi á svæðinu var ekki "afnumið" með öðru merki.Merki þetta ber að nota við akstursleiðir inn á svæði þar sem sérstök takmörkun hámarkshraða er. Merkið gildir þar til takmörkunin er felld úr gildi með öðru merki, en það var ekki til staðar við Heiðarskóla. Sömu merki eru ennþá uppi við Suðurgarð og Norðurgarð í Keflavík og framan við Reykjaneshöllina, án þess að gildi merkjanna sé afnumið þegar ekið er út úr viðkomandi götum. Þeir sem aka þær götur og útaf planinu við Reykjaneshöllina verða að hafa það hugfast að þeir mega ekki aka hraðar en á 15 KM hraða um götur bæjrins, og mega ekki auka hraðann fyrr en komið er út úr þéttbýli, þar sem "álögum" þessa skiltis hefur ekki verið aflétt innanbæjar. Það sem vantar eru sem sagt skiltið á hvíta fletinum sem sýnt er á meðfylgjandi mynd...!