Tóku gúmmíbát ófrjálsri hendi og höfnuðu í sjónum - MYNDIR
Tvær unglingsstúlkur tóku gúmmíbát ófrjálsri hendi í fjörunni á Garðskaga í gærkvöldi og héldu í sjóferð út á Garðhúsavíkina. Ekki kunnu þær handtökin við árarnar og geta þakkað fyrir að hafa komist að landi aftur.
Eigandi gúmmíbátsins var ekki ánægður með að stúlkurnar hefðu tekið bátinn. Gúmmíbátinn notaði eigandinn til að komast frá skútu sem liggur á víkinni í land til að fylgjast með dagskrá sólseturshátíðarinnar. Hefði hann tapað gúmmíbátnum hefði orðið erfitt að komast aftur í skútuna.
Þegar eigandinn varð þess var að stúlkurnar væru í bátnum hans arkaði hann niður fjöruna á miklum hraða og óð út í sjóinn á móti gúmmíbátnum. Var ljóst að maðurinn var ósáttur og lyfti hann bátnum og gerði sig líklegan til að hvolfa stúlkunum í sjóinn.
Eitthvað voru stúlkurnar hræddar og stukku frá borði með þeim afleiðingum að önnur þeirra stóð ekki í lappirnar og fór næstum á kaf í sjó eins og sjá má í meðfylgjandi myndasyrpu sem tekin var í kvöld.
Stúlkurnar róa út á Garðhúsavíkina í kvöld...
... en gúmmíbáturinn tilheyrði eiganda skútunnar sem sjá má á myndinni.
Eigandi bátsins var ekki sáttur við uppátæki stúlknanna...
... og óð út í sjóinn til móts við bátinn...
... þar sem hann gerði sig líklegan til að hvolfa stúlkunum úr bátnum.
Þær stukku hins vegar frá borði með þessum afleiðingum!
Greinilegt að sjórinn er kaldur og rándýru úlpurnar hafa blotnað...
... og GSM-síminn í hægri hendinni er líka blautur!
Vinafólk í fjörunni hlær af óförum vinkvennanna...
... sem vaða í land og sú dökkhærða áttar sig á að síminn er blautur og hugsanlega ónýtur!