Tóku fíkniefnasala og efni
Lögreglan á Suðurnesjum fann talsvert af amfetamíni og kannabis við húsleit sem gerð var í íbúðarhúsnæði í Njarðvík í vikunni. Í húsleitinni, sem gerð var að fengnum dómsúrskurði, fann lögregla amfetamín í krukkum undan barnamat, sem geymdar voru í klakavél í frysti. Poki sem einnig innihélt amfetamín var í hurð frystisins. Þá fannst amfetamín á hillu í svefnherbergi og einnig í buxnavasa, auk lítilræðis af kannabis. Að auki voru haldlögð hasspípa og fleiri áhöld til fíkniefnaneyslu. Kona á þrítugsaldri var handtekin, grunuð um vörslu fíkniefna og sölu þeirra, og færð á lögreglustöð. Hún var yfirheyrð og látin laus að því loknu.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál.