Tók við verðlaunum sem stjórnandi ársins
Forseti Íslands afhenti í gær Gunni Líf Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra mannauðssviðs Samkaupa, stjórnunarverðlaun Stjórnvísis í flokki millistjórnenda. Afhendingin fór fram við hátíðlega athöfn á Grand hóteli en þetta er þrettánda árið í röð sem Stjórnvísi verðlaunar þá stjórnendur fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr á sínu sviði.
Gunnur hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir framsækna mannauðsstefnu og áherslu á jafnrétti og fjölbreytileika innan Samkaupa, sem reka m.a. Nettó, Kjörbúðina, Krambúðina og Iceland. Hún tók við starfi framkvæmdastjóra mannauðssviðs árið 2018. Gunnur er 34 ára með menntun í kennslufræðum og MBA gráðu frá Háskóla Íslands.
Í umsögn dómnefndar segir m.a. að á örfáum árum hafi Gunni tekist „að umbreyta menningu rótgróins fyrirtækis sem um munar.“ Um talsverða áskorun hafi verið að ræða allt frá upphafi enda starfa vel á annað þúsund manns hjá Samkaupum við skrifstofustörf, tæknistörf og fjölbreytt verslunarstörf í rúmlega 60 verslunum sem staðsettar eru um allt land. Með því að setja upp skýra stefnu í mannauðsmálum, vera sýnileg, beita virkri hlustun og sýna leiðtogahæfileika hafi Gunni tekist að gera Samkaup að eftirsóttum vinnustað auk þess sem starfsfólk finni fyrir mikilvægi sínu. Gunnur hafi sýnt það í verki að hún hafi mikinn metnað fyrir vellíðan starfsfólks, jafnrétti og starfsþróun starfsmanna.