Togað fyrir utan Sandgerði
Þá er marsmánuðurinn kominn í gang og þetta er nú iðulega einn af stærstu aflamánuðum ársins. Samt er nokkuð sérstakt að sá mikli bátafloti sem var í Sandgerði í janúar og febrúar er að mestu horfinn því að flestir línubátanna eru komnir til Grindavíkur og netabátarnir eru komnir í Faxaflóann. Eftir standa fiskimiðin utan við Sandgerði – en hverjir eru þá að veiða þar?
Jú, mjög stór og mikill handfærafloti sem rær meðal annars frá Sandgerði og línubátarnir sem eftir eru, t.d. Beta GK og Steinunn BA – og síðan er ansi margir svokallaðir þriggja mílna togbátar sem eru að toga þarna rétt fyrir utan Sandgerði.
Þeir eiga það reyndar allir sameiginlegt að enginn þeirra landar í Sandgerði eða á Suðurnesjum yfir höfuð. Þarna eru t.d. togbátarnir frá Grundarfirði en frá því að síðasti pistill var skrifaður þá voru fjórir bátar frá Grundarfirði þarna fyrir utan; Runólfur SH, Sigurborg SH, Farsæll SH og Hringur SH. Allir þessir bátar voru að landa um 70 til 90 tonnum. Sömuleiðis var þarna Harðbakur EA sem landaði í Hafnarfirði.
Sjómenn í Sandgerði hafa bent á þetta að þeim finnist ósanngjarnt að fiskimiðin þarna fyrir utan séu stunduð af þriggja mílna togbátum, sem eru í raun bara litlir togarar, en toggetan hjá þessum 29 metra bátum er ansi mikil.
Á árum áður, þegar að trollbátar voru að róa þarna fyrir utan Sandgerði, voru þetta margfalt minni bátar og með mun minni toggetu en núverandi bátar. Helst voru þetta togbátarnir sem að Miðnes HF átti, t.d. Reynir GK, Jón Gunnlaugs GK, Elliði GK og Geir Goði GK. Voru þessir bátar að veiða í kringum 1.500 tonn á hverju ári.
Togbátarnir í dag, eða þessir 29 metra bátar, eru flestir að veiða hátt í þrjú til fjögur þúsund tonn á ári og er þetta ansi mikill munur.
Hvað með hinar hafnirnar? Jú, togveiðar eru bannaðar í Faxaflóanum og því sleppur Keflavík ansi vel við þessa togbáta – en hvað þá með Grindavík?
Jú, Grindavík virðst sleppa nokkuð vel við togbátana því þeir eru ekkert á veiðum á þeim miðum sem að t.d. línubátarnir frá Grindavík eru að veiða á.
Talandi um Grindavík þá er búið að vera nokkuð mikið um að vera þar. Vörður ÞH kom með 83 tonn í einum róðri, en hann var að veiðum utan við Sandgerði, og Sturla GK með 57 tonn í tveimur, báðir á togveiðum.
Hjá línubátunum er t.d. Sandfell SU með 65 tonn í sex, Hafrafell SU 62 tonn í sjö, Óli á Stað GK 43 tonn í sex, Sævík GK 43 tonn í sex, Daðey GK 37 tonn í fimm, Vésteinn GK 36 tonn í sex og Margrét GK 35 tonn í sex. Allir að landa í Grindavík.
Í Sandgerði er t.d. Beta GK með 24 tonn í sex og Steinunn BA tólf tonn í tveimur.
Veiðar handfærabátanna hafa verið mjög góðar. Guðrún GK er með 8,4 tonn í fjórum róðrum og mest 2,8 tonn, Guðmundur Þór AK 4,5 tonn í þremur og Nýi Víkingur NS 3,1 tonn í fjórum. Allir í Sandgerði.
Hjá dragnótabátunum er Sigurfari gK með 39 tonn í þremur, Siggi Bjarna GK 36 tonn í þremur, Benni Sæm GK 30 tonn í þremur og Aðalbjörg RE 23 tonn í þremur. Allir í Sandgerði.
Loðnuskipin hafa verið á veiðum hérna utan við Suðurnesin og fyrir utan Helguvík mátti t.d. sjá Huginn VE og Polar Amaroq en þeir báðir voru að frysta loðnu um borð og komu síðan til Reykjavíkur og lönduðu loðnunni þar.