Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Töfrandi Jónsmessudagskrá á morgun
Föstudagur 25. júní 2004 kl. 14:54

Töfrandi Jónsmessudagskrá á morgun

Laugardaginn 26. júní munu Bláa Lónið og Grindavíkurbær bjóða Jónsmessudagskrá sem samanstendur af hellaskoðun, jónsmessugöngu á Þorbjörn og slökun í Bláa Lóninu - Heilsulind

Hellaskoðunin mun standa yfir frá klukkan 16.00 til 17.30. Hellirinn sem verður skoðaður nefnist Dollan en hann er staðsettur í hrauninu rétt við Grindavíkurveg skömmu áður en komið er að afleggjaranum sem liggur að Bláa Lóninu - heilsulind. Dollan er um 80 metra langur hellir sem stækkar í stóra og myndarlega hvelfingu eftir að komið er inn í hann. Hellasvæðið sést vel frá veginum en verður einnig vel merkt fyrir gesti. Næg bílastæði eru til staðar. Leiðin að hellinum er greið og hentar öllum aldurshópum en foreldrar eru hvattir til þess að láta börn sín vera með hjólahjálma.

Jónsmessuganga á fjallið Þorbjörn fer svo fram síðar um kvöldið en hún hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár. Lagt verður af stað frá sundlaug Grindavíkur kl. 20.30 og er áætlað að gangan taki rúmar tvær klukkustundir. Kristján Kristjánsson (KK) söngvari verður með í för og tekur lagið með hópnum þegar á toppinn er komið. Göngunni lýkur við Bláa Lónið - heilsulind sem opin verður til klukkan 01.00 eftir miðnætti og mun KK áfram halda uppi góðri stemningu fyrir gesti.

Enginn þátttökukostnaður verður í hellaskoðun og göngu. Þá fá þátttakendur í hellaskoðun og göngu 2-1 tilboð af aðgangseyri í Bláa Lónið – Heilsulind.

Veitingastaðurinn í Bláa Lóninu - heilsulind mun bjóða sérstakan kvöldmatseðil þar sem boðið verður upp á BLUE LAGOON humarsúpu og fiskrétt eða BLUE LAGOON humarsúpu og kjúklingarétt fyrir aðeins kr. 2.850,- Hægt verður að panta nudd í heilsulindinni meðan á kvöldagskrá stendur en það má gera með því að hringja í síma 420 8832 eða senda tölvupóst á [email protected]

Sætaferðir verða til Grindavíkur frá BSÍ klukkan 19.30 og frá SBK kl. 20.00. Sætaferðir frá Bláa Lóninu – heilsulind verða til Grindavíkur, Reykjanesbæjar  og Reykjavíkur kl. 01:00.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024