Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tófan tryggir flugöryggi á Keflavíkurflugvelli
Þriðjudagur 9. júlí 2002 kl. 13:02

Tófan tryggir flugöryggi á Keflavíkurflugvelli

Stefán Thordersen, forstöðumaður öryggissviðs Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli, segir í samtali við Víkurfréttir að refir séu ákjósanlegt verkfæri til að tryggja flugöryggi við flugbrautir Keflavíkurflugvallar. Fréttir hafa borist um að refir fari um í hópum í sumarbústaðabyggð á Suðurlandi. Þessir refir væru ekki vandamál ef þeir væru í heiðinni umhverfis Keflavíkurflugvöll, að mati Stefáns. Þar á bæ vilja menn sjá tófunni fjölga í umhverfi flugvallarins.Varppör skipta tugþúsundum í heiðinni
Flugmálastjórnin á Keflavíkurflugvelli stendur fyrir fuglafæliaðgerðum umhverfis Keflavíkurflugvöll með það að markmiði að auka flugöryggi en flugumferð stafar mikil hætta af fugli í flugtaki og lendingu flugvéla. Varnarliðið hefur staðið að fuglafæliaðgerðum nokkur undanfarin ár og skotið um og yfir 2000 fugla árlega innan girðingar. Á síðasta ári skaut varnarliðið eingöngu 600 fugla innan girðingar. Ljóst er því að vegna aðgerða starfsmanna varnarliðsins hefur fuglinn fært sig út fyrir girðingu. Starfsmenn Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli hófu fuglafæliaðgerðir utan varnargirðingar árið 2000 og skutu rúmlega 4800 fugla og í fyrra féllu 5809 fuglar fyrir skotvopnum starfsmanna Flugmálastjórnarinnar.
Vargfugl er að verða mikið vandamál á Suðurnesjum og er að stutt af rannsóknum sem gerðar hafa verið fyrir Flugmálastjórnina. Árið 1980 var gerð könnun á varppörum í umhverfi Keflavíkurflugvallar. Þá kom í ljós að pörin voru 1000 talsins. Árið 1987 urðu menn fyrst varir við varp á milli flugbrauta. Þegar varppör voru næst talin árið 1992 kom í ljós að þau voru orðin 20.000 á svæðinu og fimm árum síðar voru pörin orðin 30.000 talsins.

Sílamávurinn ógnar flugöryggi
Flugmálastjórnin á Keflavíkurflugvelli vinnur markvisst að fuglafæliaðgerðum. Að sögn Stefáns er það ekki endilega markmiðið að skjóta sem mest af fugli, heldur miða aðgerðir að því að halda fuglinum fæla fugl frá flugbrautum, flugbrautarendum og aðflugssvæðum vegna hættunnar sem fuglinn skapar. Sílamávur er helsta ógnin við flugið í Keflavík og það er hann sem hefur fjölgað sér svo mikið síðustu tvo áratugi. Menn eru að leita skýringa á fjölguninni, því frá því um 1980 hefur sorphaugum verið lokað og aðgangur að fæðu við fiskvinnlsuhús hefur takmarkast mjög. Það virðist hins vegar vera nóg æti í sjónum hér við Reykjanesið eins og ljósmyndir sem Víkurfréttir tóku í Garðsjó fyrir síðustu helgi sanna. Þar voru þúsundir, ef ekki tugþúsundir fugla í miklu æti.

Refurinn gott verkfæri
Flugmálastjórnin á Keflavíkurflugvelli hefur fengið Pál Hersteinsson, líffræðing, í samstarf við sig um ráðgjöf í þeirri vá sem fugl við flugbrautir er. Páll hefur komist að þeirri niðurstöðu að refur sé gott verkfæri til að sporna gegn vargfugli og halda honum frá flugbrautum. Það sé hins vegar vandamál að ref hefur næstum verið útrýmt á Suðurnesjum. Flugmálastjórninni á Keflavíkurflugvelli finnst þar hafa verið fórnað minni hagsmunum fyrir meiri. Æðarbændur á Stafnesi kunna að vera mótfallnir fjölgun á ref, en Stefán sér fyrir sér fjölgun á ref á ákveðnum svæðum innan lokaðrar girðingar Keflavíkurflugvallar. Stefán segir mófugli standa minni hætta af tófunni en t.d. sílamávinum. Þar komi felulitur mófugla sér vel. Stefán segir það vilja Flugmálastjórnarinnar á Keflavíkurflugvelli að friða ref á Suðurnesjum í nokkur ár og halda svo stofninum í skefjum. Flugmálastjórnin tekur málið alvarlega, enda markmiðið að tryggja flugöryggi, þar sem hagsmunir svæðisins séu miklir. Flugmálastjórnin mun kosta áframhaldandi rannsóknir á fugli í umhverfi flugbvallarins. Þá hefur verið lagt í mikinn kostnað við búnað til að halda fugli frá flugbrautum. Þannig eru notuð torfærutæki til að komast um heiðina. Bifreið og torfærutæki á 6 hjólum voru valin og útbúin á þann hátt að spjöll á jarðvegi yrðu í algjöru lágmarki. Einnig hafa verið keypt öflug skotvopn, þar sem sílamávurinn heldur sig oft hátt á lofti. Þá sagði Stefán að lögð væri mikil áhersla á að hreinsa bæði upp hræ og skothylki. Fuglavandamálið virðist fara vaxandi miðað við fjölgun varppara, sem voru 30.000 fyrir fimm árum síðan. Það þarf því að grípa til markvissar aðgerðir til að bægja hættunni frá og til að tryggja öryggi í flugi við Keflavíkurflugvöll. Til dæmis kostar hreyfill í Boeing 757 um eina milljón dollara þannig að fjárhagslegt tjón getur orðið töluvert ef fugl færi í hreyfil svo ekki sé minnst á þær hræðilegu afleiðingar sem orðið gætu er flugvél færist vegna áreksturs við fugl og eða fuglager. Það er því álit Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvelli að því fé sem eytt er í fuglafæliaðgerðirnar sé vel varið og sé gríðarlegt flugöryggisatriði.


Viðtal og myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024