Tófa og yrðlingar herja á kríuvarp á Vatnsleysuströnd
Tófa hefur herjað á kríuvarp á Vatnsleysuströnd síðustu daga og gert talsverðan usla í varpinu.
Í síðustu viku var fengin skytta sem felldi fullorðið dýr í varpinu. Kvöldið eftir að það dýr var fellt varð aftur vart við rebba í varplandinu. Þá var skyttan aftur kölluð til.
Þá var tófa mætt á svæðið með þrjá yrðlinga. Veiðimaðurinn náði að fella einn yrðling en bílaumferð í gegnum varplandið fældi tófuna og tvo yrðlinga á brott. Haldið verður áfram tilraunum til að fella dýrin.
Myndin: Þessi kríuungi spókaði sig í vegarkanti á Vatnsleysuströndinni í gærkvöldi á þeim slóðum þar sem tófan og yrðlingarnir hafa verið að gera usla síðustu daga. Þessi kríuungi hljómaði alveg eins og foreldrar sínir og því ljóst að þeir eru fljótir að læra það sem fyrir þeim er haft!
Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson