Tjarnarsel vekur athygli
Inga María Ingvarsdóttir leikskólastjóri og Ragnhildur Sigurðardóttir aðstoðarleikskólastjóri tóku á móti gestum frá Menntamálaráðuneytinu og landssamtökum Heimilis og skóla. Tilefni heimsóknarinnar var vegna foreldraverðlauna sem Tjarnarsel, fyrstur leikskóla, fékk 15. maí s.l.
Gestirnir komu til að fræðast um lestrar- og skriftarhvetjandi umhverfi leikskólans, sem verðlaunin voru veitt fyrir.
Inga María leikskólastjóri sagði frá þróunarstarfinu sem farið hefur fram á Tjarnarseli varðandi lestrarnám ungra nemenda skólans. Á leikskólanum er mikil áhersla lögð á lestur og lestrarhvetjandi umhverfi á öllum deildum.
Þegar börnin eru á síðustu önninni í leikskólanum hafa þau val um að sækja einstaklingsmiðað lestrarnámskeið. Börnin koma fjórum sinnum í viku saman í 7-8 nemenda hóp með 4 leikskólakennara. Börnin öðlast meira sjálfstraust gagnvart lestri og námi eftir þátttöku sína á námskeiðinu. Inga María telur mikilvægt að byggja brú á milli leik- og grunnskólanna og væri markvisst lestrarnámskeið einn liður í þeirri brú. Þá fara börnin heim með námsefni og foreldrar geta aðstoðað við námið. Börnin eru með möppu eins og í skólanum sem ferðast á milli heimilis og skóla.
Einnig kom Inga María inn á mikilvægi foreldrasamstarfs. Foreldrar eru mjög meðvitaðir um hlutverk sitt og styðja við það starf sem leikskólakennarar eru að vinna með börnunum.
Til gamans nefndi hún hvernig öflugt foreldrafélag Tjarnarsels hefur stutt við bakið á starfsfólkinu á ýmsa vegu. „Foreldrafélag sem bíður starfsfólki upp á nudd eða morgunverðarhlaðborð gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að þeir sem vinna með börnin þeirra alla daga líði vel í vinnunni”.
VF-mynd/Inga