Tjarnarsel stóð fyrir málþingi í tilefni hálfrar aldar afmælis
Leikskólinn Tjarnarsel og fræðslusvið Reykjanesbæjar stóðu fyrir málþingi í Hljómahöll fyrr í dag. Umfjöllunarefnið var orðaforði og tengsl hans við leik og nám ungra barna. Málþingið var haldið í tilefni af hálfrar aldar afmæli Tjarnarsels, en Tjarnarsel er elsti leikskóli Reykjanesbæjar.
Boðið var upp á fjölda fyrirlestra og erinda í málstofum, en 340 þátttakendur, alls staðar af landinu, skráðu sig til þátttöku í málþinginu. Í undirbúningsnefnd málþingsins voru þær Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir, leikskólafulltrúi, Árdís Hrönn Jónsdóttir, leikskólastjóri Tjarnarsels og Inga María Ingvarsdóttir, fyrrverandi leikskólastjóri Tjarnarsels.
Ingibjörg Bryndís segir þær afskaplega ánægðar með að finna þennan áhuga. „Við erum stoltar af því að geta boðið upp á tíu fyrirlestra og erindi sem öll eru flutt af fagfólki sem býr og starfar hér á svæðinu.“