Tjaldsvæðið hefur sannað gildi sitt
Metnaðurinn borgaði sig.
Grindvíkingar eiga glæsilegt tjaldsvæði sem byggt var 2009. Mikill metnaður var lagður í það á sínum tíma og þjónustuhúsi bætt við og allt var sérhannað og dýrt. Grindvíkingar sjá alls ekki eftir því í dag því þeir sem þekkja tjaldsvæði á Íslandi vita að þetta er mikið nýtt. Einnig hefur það komið fram í könnunum um notkun tjaldsvæða. Helmingur þeirra sem nýta tjaldsvæðið í Grindavík eru útlendingar og Íslendingar sem nýta svæðið eru svipað margir. Vinsælt er meðal Íslendinga að halda ýmis konar mót; ættarmót eða á vegum félagasamtaka. Flestir útlendingarnir koma úr flugi eða fara í flug og dvelja eina nótt. Þeir eru svo ánægðir með svæðið og aðstöðuna að þeir koma aftur í lok ferðarinnar og nýta jafnvel tvo til þrjá daga til að skoða sig um.
Nálægðin við Bláa lónið hefur einnig heilmikið að segja. Þá hefur tilkoma Suðurstrandarvegar frá Grindavík til Þorlákshafnar breytt viðhorfi til staðsetningar Grindavíkur. Tjaldsvæðið er við Austurveginn sem kemur í beinu framhaldi af Suðurstrandarveginum. Samfélagið í Grindavík nýtur dálítið góðs af því líka og aðsóknin á tjaldsvæðið hefur aukist um 20% á hverju ári undanfarin ár. Tjaldsvæðið hefur einnig sannað gildi sitt og komið hefur svolítið á óvart að ferðamennirnir sem gista þar skilja meira eftir sig í gjaldeyri en von var á, t.d. með því að fara á veitingahúsin og kaupa í verslununum. Lagður hefur verið metnaður í að hafa góða þjónustu á svæðinu og allt til alls.