Tíu hafa áhuga á hlut ríkisins í HS
Tíu aðilar hafa lýst yfir áhuga á að bjóða í ríflega 15 prósenta hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja en frestur til að bjóða í hlutinn rann út á mánudaginn.
Tilkynningarnar voru sendar einkavæðingarnefnd og voru þær frá fjárfestingarbankanum Öskum Capital, Atorku Group, Base ehf., Geysi Green Energy, breska fjárfestingarsjóðnum Impax New Energy Investors LP, Norvest ehf., óstofnuðu félagi í eigu starfsmanna Hitaveitunnar og Sparisjóðs Keflavíkur og fleiri, frá öðru óstofnuðu félagi í eigu Landsbanka Íslands, Harðar Jónssonar og Arnar Erlingssonar, þriðja óstofnaða félaginu í eigu Gnúpverja ehf., Hvatningar, Kaupfélags Suðurnesja, Nesfisks og Vísis og loks frá Saxbyggi ehf.
Allir aðilarnir uppfylla þau skilyrði sem sett voru í auglýsingu fyrir því að mega bjóða í eignarhlutinn og á næstu dögum og vikum verður þeim gefinn kostur á frekari kynningu á fyrirtækinu ásamt upplýsingum um söluferlið. Frestur til þess að skila inn bindandi verðtilboði er svo til 30. apríl. Þann dag verða tilboðin opnuð.
Frétt af www.visir.is