Tíu ára afmæli Keilis fagnað
- Þrjúþúsundasti nemandinn útskrifaður á árinu
Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, fagnar 10 ára afmæli þann 4. maí næstkomandi í Andrews Theater á Ásbrú frá klukkan 15:00 til 16:30. Meðal gesta í afmælinu verða Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, mun stýra umræðum um framtíð menntunar og Keilir mun veita fyrstu vendinámsverðlaunin fyrir þann kennara sem hefur skarað fram úr í innleiðingu nýrra kennsluhátta. Valdimar Guðmundsson og Jónína Aradóttir sjá um tónlistaratriði auk þess sem Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar spilar. Að lokinni dagskrá verður opið hús og léttar veitingar í aðalbyggingu Keilis til klukkan 18:00. Óskað er eftir því að þeir sem ætla að taka þátt í afmælisdagskrá og málþingi um framtíð menntunar skrái sig til þátttöku á vef Keilis.
Keilir var stofnaður og hóf starfsemi á Ásbrú í Reykjanesbæ 4. maí 2007. Á þessum tíma hafa samtals 2.799 nemendur verið útskrifaðir úr deildum skólans. Í tilefni af afmælisárinu hefur skólinn safnað sögum og viðtölum við hluta þeirra nemenda og birt á heimasíðunni www.keilir.net/10ara.
Keilir er alhliða menntafyrirtæki í eigu háskóla, fyrirtækja og almannasamtaka. Námið í Keili skiptist í fjögur sérhæfð meginsvið, en innan hvers sviðs er fjölbreytt námsframboð. Sviðin fjögur eru Háskólabrú, sem miðar að því að undirbúa nemendur fyrir háskólanám, Flugakademía, sem býður upp á ýmis konar flugtengt nám, Íþróttaakademía sem veitir ÍAK þjálfararéttindi og leiðsögunám í ævintýraferðamennsku og tæknifræði, sem skiptist í iðntæknifræði og mekatróník hátæknifræði.
Keilir hefur aðsetur á Ásbrú í Reykjanesbæ á fyrrum varnarsvæði bandaríska hersins. Frá upphafi hefur skólinn einsett sér að byggja upp námsmannasamfélag þar sem boðið er upp á vandað nám með áherslu á nýstárlega kennsluhætti og fyrsta flokks aðstöðu. Keilir er hlutafélag og eru meðal eigenda Háskóli Íslands, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, rannsóknarstofnanir, orku- og fjármálafyrirtæki, sveitarfélög, almenningssamtök, flugfélag og verkalýðsfélög.
Skólinn er lítill og sérhæfður, með áherslu á nánd við nemendur og persónulega þjónustu. Hjá Keili er mikið lagt upp úr nútímalegum og fjölbreyttum kennsluháttum, bæði í fjarnámi og staðnámi. Einnig að nemendum sé skapað traust og gott námsumhverfi. Keilir starfar samkvæmt þjónustusamningi við Menntamála- og menningarmálaráðuneytið um kennslu á framhaldsskólastigi. Mikið er unnið í teymisvinnu og hópverkefnum. Kennarar og aðrir starfsmenn eru áhugasamir um að nýta upplýsingatækni og tækninýjungar við kennslu sem miðar að því að gera nemendur að virkum þátttakendum í kennsluháttunum, ekki síður en náminu sjálfu.