Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 30. mars 2000 kl. 15:25

Tíu ára áætlun hjá Reykjanesbæ:

Áætlanagerð mikilvægt tæki til að ná markmiðum Meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Reykjanes- bæjar hefur unnið að gerð tíu ára áætlunar þar sem megináherslan er á niðurgreiðslu skulda bæjarsjóðs. Skúli Skúlason, forseti bæjarstjórnar segir að með markvissri fjármálastjórn og heildaryfirsýn mun Reykjanesbæ farnast vel við að þjóna bæjarbúum og fara skynsamlega með skattféð.„Áætlanagerð er mikilvægt tæki til þess að ná markmiðum sem sett eru. Kostir áætlunargerðar eru ekki síður fólgnir í þeim fjárhagslega ávinningi sem hlýst af því að geta horft á markmiðin í heildarsamhengi með hagsmuni alls sveitarfélagsins í huga, auk þess fá stjórnendur og starfsmenn meiri rekstrarlega meðvitund og skilningur á efnahags- og fjármálum verður meiri. Fjárhagsáætlun til eins árs og 3ja ára eru lögbundnar samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Tíu ára áætlun er síðan viðbót við trausta fjármálastjórn sveitarfélags“, segir Skúli Skúlason.. Niðurgreiðsla lána aðal verkefnið Skúli segir að meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Reykjanesbæjar hafi unnið að gerð 10 ára áætlunar þar sem megináherslan er á niðurgreiðslu skulda bæjarsjóðs. „Öllum bæjarbúum er vel ljóst að umfangsmiklar framkvæmdir við einsetningu skólanna okkar eru afar kostnaðarsamar og allt fjármagnið er tekið að láni. Þessum framkvæmdum er ætlað að ljúka í árslok 2000 og eftir þann tíma verða helst ekki tekin nein ný lán næstu árin. Niðurtalning skulda bæjarstjóðs byrjar þá með markvissum aðgerðum. Í árslok 2000 er markmið okkar allra að grunnskólarnir okkar fjórir verði sambærilegir varðandi innri og ytri aðbúnað. Þeir verða aldrei eins enda hver með sín sérkenni og það verður alltaf starfið sjálft sem verður mælikvarði á gæðin en ekki „lúxusinn“, í kringum okkur“. Markviss niðurtalning í árslok Megináherslur í fjármálum bæjarsjóðs næstu árin verður því niðurgreiðslur skulda. Skúli segir skuldir bæjarsjóðs verða í árslok 2000 líklega um 3.3 milljarðar. „Þetta hefur meirihluta bæjarstjórnar verið vel ljóst enda með fullkomið vald og yfirsýn yfir stöðu mála. Í árslok 2000 tekur sem sagt við markviss niðurtalning skulda. Eins og sjá má á mynd I „Niðurgreiðslur langtímalán”, er fyrirhugað að verja 225 milljónum króna að meðaltali á ári í niðurgreiðslur langtímalána næstu 10 árin eða alls rúmlega 2 milljörðum á tímabilinu“. Framkvæmdir þrátt fyrir niðurgreiðslu Aðspurður um þær forsendur sem meirihlutinn notar við áætlunargerðina eru segir Skúli þær sömu og við 3ja ára áætlun varðandi fjölgun íbúa, þjónustugjöld og launahækkanir. Meginforsendan verður þó að rekstur sveitarfélagssins taki ekki meira til sín en um 70 % að skatttekjunum. „Gangi þessar forsendur eftir höfum við þrátt fyrir niðurgreiðslur skulda vaxandi fjármagn til þess að standa undir gjald- og eignfærðri fjárfestingu eða árið 2004 170 milljónir kr. sem fara árlega hækkandi til ársins 2010 þegar þær verða rúmlega 634 milljónir, sjá mynd II“. Og þrátt fyrir öfluga niðurgreiðsu skulda næstu árin gerum við ráð fyrir mikilvægum framkvæmdum svo sem : · Bygging Tónlistarskóla hefjist árið 2004 · Nýr leikskóli verði byggður á árunum 2005 - 2007 · Bygging Thorkelískóla ( nýr grunnskóli í Innri Njv. ) hefjist 2006 - 2008 · Upppbyggingu Duus húsanna standi yfir á árunum 2002 - 2010 · Ljúka framkvæmdum við innisundlaugina við Sunnubraut · Deiliskipuleggja Nikkelsvæðið, Innri Njarðvíkurnar, svæðið með Flugvallarvegi og í Höfnum · Framkvæmdir við endurgerð Hafnargötu verði á árunum 2003 - 2010 · Þátttaka í verkefnum á vegum SSS svo sem ljúka byggingu D-álmu, uppbyggingu Fjölbrautaskólans og Sorpeyðingarstöðvarinnar. „Með markvissri fjármálastjórn og heildaryfirsýn mun Reykjanesbæ farnast vel við að þjóna bæjarbúum og fara skynsamlega með skattféð“, segir Skúli Skúlason, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024