Tíndu 3,8 kíló af plasti á klukkustund
Nemendur í 6. bekk Grunnskóla Grindavíkur tóku á dögunum þátt í átakinu Hreinsum Ísland og kynntu sér í leiðinni áhrif plasts á umhverfið og hvað þau gætu gert til að minnka notkun á plasti.
Þórunn Alda Gylfadóttir, kennari við Grunnskóla Grindavíkur sagði í samtali við Víkurfréttir að þau hafi farið í gönguferðir með plastpoka og tínt í þá plast sem þau fundu í nágrenni skólans og þegar í skólann var komið, þá var ruslið vigtað en það voru 3,8 kg af plasti í pokunum eftir einn klukkutíma í tínslu.
„Öðru hverju í vetur höfum við komið að þessu málefni með einum eða öðrum hætti og svo í vor þá tóku nemendur þátt í því að starta þessu átaki Hreinsum strandlengju Íslands og er ég mjög stolt af þessum krökkum og þeim hugmyndum sem þau komu með um að minnka notkun plasts eins og að nota ekki plastlok eða rör á veitingastöðum“, segir Þórunn Alda.