Tími stóru skottertanna liðin
„Þetta leggst alveg þokkalega í mig. Sumar vörur hafa hækkað í verði en við reynum að koma til móts við fólk með því að lækka verð á öðrum vörum á móti. Í einhverjum tilvikum tökum við hækkunina á okkur. Við tökum líka mið af því að inn í þetta eru komnir einkaaðilar sem veita okkur ákveðna samkeppni og hafa meira svigrúm í verðlagningu,“ segir Ólafur Bjarnason, sem hefur umsjón með flugeldasölu knattspyrnudeildar Keflavíkur. Hann segir fyrst og fremst gengismuninn hafa áhrif á verðlag flugelda.
Aðspurður segir Ólafur breytingar hafa orðið á sölunni strax um síðustu áramót eftir að kreppan skall á. „Við verðum eflaust meira varir við það núna að fólk spáir meira í verðmun. Salan minnkar án efa í dýrari skoteldum eins og stóru terunum sem eru orðnar alltof dýrar að mínu mati,“ segir Ólafur. Breyttar aðstæður voru hafðar til hliðsjónar í flugeldainnkaupum deildarinnar og meira keypt inn af ódýrari flugeldum. „Í tertunum leggjum við áherslu á verðbilið 2,500 – 13000 krónur. Einnig lækkuðum við verðið á stærsta fjölskyldupökkunum sem var á 16,900 kr. en fer í 14.900 kr, svo dæmi sé nefnt,“ sagði Ólafur í samtali við VF.
Flugeldasala knattspyrnudeildarinnar er að Iðavöllum 7 í Reykjanesbæ.