Tímamót með glænýjum kennsluflugvélum
Fyrir helgi var boðað til fagnaðar í flugskýli 780 á Keflavíkurflugvelli. Tilefnið var kynning á glænýjum kennsluvélum Keilis og upphaf kennslu annars hóps í námi til einkaflugs.
Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri samgönguskóla Keilis, lýsti Flugakademíunni þar sem ætlunin er að hafa undir einum hatti allt flugtengt nám. Nú þegar er verið að kenna flugfreyjum og einkaflugmönnum. Jafnframt er að hefjast kennsla fyrir flugumferðarstjóra og bóklegt nám fyrir atvinnuflugmenn.
Að sögn Hjálmars er í vinnslu samningur við Kínverja um kennslu í flugtengdu námi. Hann segir Keilir setja sér sterk og skýr markmið um faglegar kröfur og vilji innleiða nýja kennsluhætti í flugkennslu á Íslandi. Keilir væri þegar búinn að panta fimm kennsluvélar af Diamond-gerð og tvær þær fyrstu eru nú komnar. Jafnframt væri á borðinu samningur um notkun Cirrus vélar ti flugkennslunnar
Hinar nýju Diamond DA20-C1 vélar Flugakademíu Keilis eru smíðaðar úr koltrefjaefnum sem gerir framleiðandanum kleift að gera þær einstaklega straumlínulagaðar og sterkar. Það gerir vélarnar hagkvæmari, umhverfisvænni og að sama skapi hljóðlátari en eldri vélar, að sögn Kára Kárasonar, skólastjóra Flugskóla Keilis.
Diamond vélar eru hannaðar út frá svifflugum og er því svifdrægni þeirra einstök. Bandaríski herinn hefur einnig valið Diamond DA20 og DA40 fyrir grunnþjálfun sinna flugmanna. Meðhöndlun og útsýni er eins og best verður á kosið í þessum nýju vélum sem koma "beint úr kassanum". Þær eru eingöngu flognar um 3 klst. hjá framleiðanda sem hluti af prófun fyrir afhendingu. Nemendur Keilis munu njóta góðs af því að fljúga nýjustu vélum landsins.
Efri mynd: Flugvélakostur Keilis er í flugskýli 780.
Neðri mynd: Margt gesta var í flugskýli 780 á föstudaginn. Á myndinni er Kári Kárason, skólastjóri Flugskóla Keilis að flytja ávarp. VFmyndir/elg.