Tímabærri ákvörðun um hvalveiðikvóta fagnað
Stjórn Útvegsmannafélag Suðurnesja fagnar þeirri tímabæru ákvörðun sjávarútvegsráðherra að gefa út hvalveiðikvóta til næstu fimm ára. Veiðar úr hvalastofnum eru ekki aðeins í samræmi við hugmyndir um sjálfbærni og skynsamlega nýtingu sjávarafurða, heldur einnig mikilvægt framlag til aukinnar atvinnu- og gjaldeyrissköpunar.
Umtalsverð fjölgun hvala við strendur Íslands undanfarna áratugi hefur raskað jafnvægi lífríkis í hafinu. Þar nægir að vísa til stöðu loðnustofnsins. Afrán þeirra tólf tegunda hvala, sem halda sig reglulega við Ísland, er gríðarlegt. Talið er að hvalir éti árlega um 6 milljónir tonna af fæðu við landið, þar af 2 milljónir tonna af fiski. Samkvæmt mati sérfræðinga Hafrannsóknastofnunarinnar getur áframhaldandi vöxtur hvalastofna haft veruleg áhrif á langtíma afrakstur þorskstofnsins.