Tilraunir með hreyfimyndir á vf.is
Víkurfréttir á Netinu ætla að gera tilraunir með hreyfimynda- og hljóðskrár með fréttum á vf.is á næstu vikum. Hugmyndin er að bjóða upp á videoklippur með völdum fréttum og einnig hljóðskrár þar sem við á.
Við ríðum á vaðið með tveggja mínútna viðtali við Árna Sigfússon, bæjarstjóra í Reykjanesbæ, um Víkingaheima sem á að fara að reisa á Fitjum. Viðtalið er síðan myndskreytt með myndum frá því þegar skrifað var undir samninga við íslenska ríkið og frá afhjúpun á Kaldárhöfðasverðinu, 7 metra háu listaverki, í Innri Njarðvík. Hreyfimyndaskrárnar eru vistaðar í .mov formi sem best er að spila með QuickTime spilara, sem sækja má ókeypis á netið á slóðinni http://www.apple.com/quicktime/download/
Hljóðskrá verða á mp3-formi sem flest allir ættu að ráða við að hlusta á. Eitt dæmi um slíka skrá er að finna í viðtali við Matta Óla, sem flokkað er undir mannlíf hér á vf.is, en þar er sýnishorn af einu lagi eftir hann.
Við biðjum notendur að gefa okkur einhverja daga eða vikur í að þróa þessa hugmynd frekar. Unnið er að því að geta þjappað skránum enn meira, án þess að tapa gæðum og þannig að hægt sé að opna skrár í fullan skjá.
Við fylgjumst með aðsókn í þetta efni í vefmælingu Víkurfrétta, en einnig þætti okkur vænt um að heyra viðbrögð notenda með því að senda okkur línu á [email protected].
Video: Viðtal við Árna Sigfússon, bæjarstjóra (.mov )