Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tilraunaboranir í Eldvörpum í sumar
Gulu reitirnir á kortinu sýna hvar borteigar fyrir rannsóknarborholur verða staðsettar. Borteigarnir verða staðsettir í fjarlægð frá glæsilegri gígaröð í Eldvörpum. HS Orka vonast til að geta fengið um 50 MW úr Eldvörpum innan fáeinna ára. Stærsti hluti þ
Laugardagur 26. janúar 2013 kl. 09:00

Tilraunaboranir í Eldvörpum í sumar

Dapurt þegar fagleg vinna sérfræðinga er hunsuð fyrir pólitískum hrossakaupum.

HS Orka hf. mun hefja tilraunaboranir í Eldvörpum í sumar ef áætlanir ná fram að ganga. Með borunum er markmiðið að afla upplýsinga sem annars vegar nægja til að sannreyna hæfi svæðisins til vinnslu og hins vegar veita grundvöll fyrir gerð fyrstu áætlunar um vinnsluholur. Nú þegar starfrækir HS Orka öfluga raforkuframleiðslu í Svartsengi og úti á Reykjanesi. Víkurfréttir ræddi við þá Júlíus J. Jónsson, forstjóra HS Orku, og Ásbjörn Blöndal, forstöðumann þróunarsviðs, um stöðu mála hjá fyrirtækinu um þessar mundir og fyrirhugaðar framkvæmdir.

Rannsóknir hafa staðið yfir um árabil í Eldvörpum. Sérstaklega hefur verið horft til svæðisins sem mögulegs virkjunarsvæðis eftir að þar var boruð 1.265 m djúp mælinga- og eftirlitshola, borhola EG-2, árið 1983 frá borplani sem er staðsett við gígaröð Eldvarpa. Þessi hola er nýtanleg sem vinnsluhola. Næsta stig rannsókna á svæðinu er borun djúpra rannsóknarholna.

Bíða niðurstöðu á umhverfismati

Framkvæmdasvæðið liggur um 5 km suðvestur af orkuvinnslusvæðinu í Svartsengi og um 4 km eru til sjávar í hásuður. Þéttbýli í Grindavík er í um 5 km fjarlægð í beinni loftlínu. Samkvæmt aðalskipulagi Grindavíkurbæjar sem samþykkt var á síðasta ári eru fjórir borteigar á skipulaginu.
„Eldvörp er komið í gegnum aðalskipulag hjá Grindavíkurbæ en eiga eftir að fara í gegnum umhverfismat. Ef allt gengur að óskum þá gætu tilraunaboranir hafist síðla sumar,“ segir Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku.

„Við teljum okkur geta fengið um 50 MW úr Eldvörpum í fyrstu umferð. Það var boruð tilraunahola á þessu svæði árið 1983 og hún gaf mjög góð fyrirheit. Á þeim tíma var Eldvörp hugsað sem varasvæði fyrir Svartsengi ef það svæði myndi ekki endast til lengri tíma. Þegar þessi tilraunahola var boruð þá komust menn að því að Svartsengi og Eldvörp væru tengd svæði. Sem betur fer þá hefur komið á daginn að Svartsengi er miklu öflugra en menn höfðu þorað að vona. Því hefur ekkert verið gert í Eldvörpum fyrr en nú. Það er kominn gufupúði á milli þessara svæða þannig að það er hægt að hefja vinnslu upp að 50 MW án þess að skaða vinnsluna í Svartsengi.“

Skilja áhyggjur um Eldvörp

Framkvæmdir í Eldvörpum eru umdeildar. Umhverfisverndarsinnar hafa áhyggjur af því raski sem gæti orðið með framkvæmdum í Eldvörpum. Vinsælar gönguleiðir líkt og Árna-, Prest- og Skipastígar liggja um Eldvörp og einnig einstæð gígaröð. Umhverfissinnar telja ávinning af því að virkja Eldvörp lítinn og að einstæðri íslenskri náttúru verði spillt með framkvæmdum sem ekki eru afturkræfar. Júlíus segir að allt verði gert til að rask á svæðinu verði minniháttar.

„Við skiljum vel áhyggjur náttúruverndarsinna og tökum tillit til þeirra. Það er falleg gígaröð í Eldvörpum sem við látum alveg í friði. Grindavíkurbær lagði mikla áherslu á það og við munum ekkert hrófla við þessu svæði. Við reynum að sneiða eins mjúklega framhjá fornmunum og við getum,“ segir Júlíus.
„Umfang þessara framkvæmda verður meira í líkingu við það sem við þekkjum úti á Reykjanesi. Það mun ekki skapast affallslón líkt og í Svartsengi en vissulega fylgja svona framkvæmdum alltaf einhver afföll.“

Ósáttir við framkvæmd rammaáætlunar

Rammaáætlun var samþykkt á Alþingi í síðustu viku. Júlíus segir að niðurstaðan fyrir Reykjanes hafi verið viðunandi en 3 svæði af 19 fóru í verndarflokk og nokkur svæði fóru í biðflokk.

„Niðurstaðan úr rammaáætlun var ekki slæm fyrir okkur hjá HS Orku. Það er hins var dapurt þegar fagleg vinna sérfræðinga er algjörlega hunsuð fyrir pólitískum hrossakaupum. Þegar maður skoðar niðurstöðuna þá virðist sem að pólitíkin hafi fengið að ráða.“

Nauðsynlegt að fá aðra línu

Unnið er hörðum höndum að því um þessar mundir að undirbúa lagningu Suðvesturlínu inn á Reykjanes. Í gegnum þá línu kæmi jafnframt meirihluti þeirrar raforku sem er nauðsynleg til að knýja álverið í Helguvík.
„Landsnet er að reyna að ná samningum við landeigendur með Suðursvesturlínu og nú þegar er búið að semja við um helming landeigenda. Þær landareignir sem ekki næst samningar um fara líklega í eignarnám. Það eru nokkrir landeigendur sem vilja frekar fara í það ferli til að fá mat á eign sína,“ segir Júlíus. Hann telur það bráðnauðsynlegt fyrir HS Orku að fá aðra raforkulínu um svæðið til að tryggja orkuframleiðslu fyrirtækisins.

„Það er nauðsynlegt fyrir svæðið að fá aðra línu. Það er óásættanlegt að vera með 170 MW framleiðslu á Reykjanesi og vera aðeins með eina línu. Þegar gera þarf lagfæringar í núverandi línu þá gætum við þurft að slökkva á okkar orkuverum í heilan dag jafnvel og kaupa orku annars staðar til að afhenda okkar viðskiptavinum. Hvort sem Helguvík kemur eða ekki þá er það okkur bráðnauðsynlegt að vera með tvær línur.“

Yfirborðsvatn úr Svartsengi út í sjó

Yfirborðsvatn í Svartsengi hefur valdið framleiðslu þar nokkrum ama. Mikið yfirborðsvatn hefur safnast saman og sést það vel þegar ekið er að Bláa lóninu. Þetta veldur því að ekki er hægt að hafa framleiðslu í Svartsengi á fullum afköstum. Til stendur að gera lögn frá Svartsengi og út  sjó til að losa um yfirborðsvatn.

„Um leið og við erum búnir að koma fyrir lögn út í sjó þá ættum við að geta aukið afköst og einnig stjórnað framleiðslu betur. Kísillinn í vatninu stíflar sprungurnar í hrauninu og því teygir vatnið sig um sífellt stærra svæði. Ef af verður þá munum við tengja lögnina við Eldvörp þannig að yfirborðsvatn þar verði lítið sem ekkert,“ segir Ásbjörn Blöndal.


Samningar við Norðurál í biðstöðu

HS Orka er í samningaviðræðum við Norðurál um að útvega 150 MW í álverið í Helguvík. Stjórnendur HS Orku telja sig geta útvegað þessa orku innan nokkurra ára en nú þegar eru laus 80 MW úr Reykjanesvirkjun sem gætu farið strax í að knýja áfram vinnslu í Helguvík. Júlíus segir samningaviðræður í biðstöðu.

„HS Orka hefur ekki náð samningum við Norðurál með orkuafhendingu í Helguvík. Samningaviðræðum hafði miðað vel fram að áramótum en nú vitum við ekki hvernig staðan er á málinu. Landsnet hækkaði gjaldskrá sína um 20% um áramótin sem lendir alfarið á okkur og minnkar arðsemina. Við vorum búnir að ná saman við Norðurál um verð en þetta breytir stöðunni. Staðan er einfaldlega þannig að við vitum ekki hvort við náum samningum í næstu viku – eða hreinlega eftir tíu ár. HS Orka getur útvegað þessi 150 MW innan nokkurra ára en Norðurál er einnig háð öðrum með orku. Úr því að þeir eru hálfpartinn búnir að reisa álverið þá ætti að vera hvati fyrir því að láta hjólin snúast,“ sagði Júlíus.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eldvörp á Reykjanesi. Mynd: HS Orka.