TILLÖGUR Í HÚSNÆÐISMÁLUM GRUNNSKÓLA REYKJANESBÆJAR SAMÞYKKTAR: ALLIR SKÓLAR EINSETNIR ÁRIÐ 2000
-skólamál stærsti málaflokkur bæjarins næstu árinTillögur VSÓ ráðgjafar um húsnæðismál grunnskóla Reykjanesbæjar var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á bæjarstjórnarfundi í fyrradag. Tillögur VSÓ lúta einnig að öðrum aðgerðum þannig að skólarnir verði allir einsetnir eigi síðar en 1. september árið 2000.Í tillögu sem bæjarstjórn samþykkti um niðurstöður VSÓ er einnig samþykkt að bæjarstjórn skipi stýrihóp þriggja bæjarfulltrúa til að hafa umsjón með og gera tillögur um útfærslu á verkefnum sem falla undir eða tengjast skólaverkefninu. Bæjarstjórn hefur falið bæjarráði að skipa í hópinn á fundi sínum 3. febrúar nk. og skal hópurinn taka þá strax til starfa. Margir bæjarfulltrúar tóku til máls á bæjarstjórnarfundinum um þetta stærsta verkefni bæjarins næstu þrjú kjörtímabil. Bæjarstjóri sagði að kostnaður bæjarfélagsins yrði eitthvað á annan milljarð króna á þessu ári. Um 800 milljónir fara í byggingu Heiðarskóla og 300 millj. í lagfæringar á öðrum skólum. Skúli Skúlason, forseti bæjarstjórnar sagði að framundan væri vandasamur tími og hliðarverkefni tengd einsetningunni væru mörg. Þar kæmi umræddur stýrihópur inn í myndina og myndi hann vinna með tengdum aðilum. Hann sagði mikilvægt að skipuleggja kynningu á málinu fyrir bæjarbúa. Sveindís Valdimarsdóttir (J) sagðist bjartsýn á framgang mála og óþarfi væri að kvíða afgreiðslu ýmissa atriða, t.d. er varðar skiptingu í skólahverfi. Þar kom hún inn á áhyggjur margra íbúa í Njarðvík að börn þeirra þyrftu að sækja Holtaskóla. „Það er kominn tími til að brjóta endanlega niður gamla bæjarmúrinn milli Keflavíkur og Njarðvíkur“, sagði Sveindís. Kjartan Már Kjartansson (B) sagði geysilega spennandi tíma framundan en að mörgu væri að hyggja.