Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tillagan ber merki öfgasjónarmiða í umhverfispólitík
Fimmtudagur 10. maí 2012 kl. 18:15

Tillagan ber merki öfgasjónarmiða í umhverfispólitík

Forsetar bæjarstjórna í þremur sveitarfélögum á Suðurnesjum, formenn tveggja bæjarráða, formaður Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi og formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis hafa sent atvinnuveganefnd Alþingis umsögn um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, 727. mál.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í umsögninni segir: „Við undirrituð gerum alvarlegar athugasemdir við ofangreinda tillögu til þingsályktunar. Horft hafði verið til Rammaáætlunar sem skynsamlegrar sáttar milli sjónarmiða orkunýtingar og verndar orkukosta, þar sem fagleg sjónarmið væru hafin yfir öfgar.

Tillagan víkur í veigamiklum atriðum frá vel ígrunduðum og hlutlægum niðurstöðum verkefnisstjórnar. Furðu sætir til dæmis að virkjanir í neðri hluta Þjórsár, sem farið hafa í gegnum ítarlegar rannsóknir og ítrekuð umsagnarferli, séu færðir niður í biðflokk á afar veikum forsendum.

Því miður ber tillagan merki öfgasjónarmiða í umhverfispólitík á kostnað skynsamlegrar verðmætasköpunar, sem knýjandi þörf er fyrir til að bæta afkomu heimilanna í landinu, ekki síst hér á Suðurnesjum þar sem atvinnuástandið er einna bágast. Tillagan er því að okkar mati ótæk og óásættanleg í núverandi mynd“.

Undir umsögnina skrifa Ólafur Þór Ólafsson forseti bæjarstjórnar Sandgerðis, Bryndís Gunnlaugsdóttir forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, Einar Jón Pálsson forseti bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Garðs, Gunnar Þórarinsson formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, Kristinn Björgvinsson formaður bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga, Guðmundur Pétursson formaður Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi og Kristján Gunnarsson formaður Verkalýðs- og sjóamannafélags Keflavíkur og nágrennis.