Tillaga um sameiningu VS og VR lögð fyrir aðalfund VS í kvöld
	Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, hefur ákveðið, í samráði við stjórn VS, að leggja til við aðalfund VS, sem haldinn verður í kvöld, fimmtudaginn 26. apríl, að samþykkt verði að fara í viðræður við VR um hugsanlega sameiningu félaganna.
	„Fari svo að aðalfundur samþykki slíka tillögu væri hægt að hefja slíkar viðræður nú þegar og ganga síðan til kosninga um sameiningu í haust þegar að niðurstaða viðræðna liggur fyrir,“ segir Guðbrandur í aðsendri grein í Víkurfréttum í síðustu viku.
	Undanfarna daga og vikur hefur komið í ljós töluverður órói í félaginu. Órói og óánægja er enn til staðar þrátt fyrir félagsfund sem haldinn var í VS á dögunum. Á þeim fundi var samþykkt að vísa frá öllum tillögum B-lista framboðs, m.a. þeirri tillögu að framlengja framboðsfrest til stjórnarkjörs.
	Aðalfundur Verslunarmannafélags Suðurnesja verður haldinn í kvöld kl. 20:00 í húsnæði félagsins að Vatnsnesvegi 14 í Reykjanesbæ. Auk venjulegra aðalfundarstarfa skv. lögum félagsins verður borin upp tillaga um heimild til að ganga til viðræðna við VR um sameiningu. Náist samkomulag verður tillaga um sameiningu lögð fyrir félagsmenn í allsherjaratkvæðagreiðslu.
	Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Gils Einarsson munu mæta á fundinn og kynna starfsemi VR og sameiningu VR og Verslunarmannafélags Suðurlands.
	
	

	Félagsmenn VS mæta á félagsfund í Hljómahöll á dögunum. VF-mynd: Hilmar Bragi
				
	
				
 
	
			

 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				