Tillaga um flutning Landhelgisgæslunnar lögð fram að nýju
Nú í vikunni var þingsályktunartillaga um flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja lögð fram að nýju á Alþingi. Í upphafi árs sendu allir tíu þingmenn Suðurkjördæmis og oddvitar meiri hluta og minni hluta í sveitarstjórnum á Suðurnesjum áskorun til ríkisstjórnarinnar um að taka ákvörðun um flutning Landhelgisgæslunnar á Suðurnes. Þar var hvatt til þess að lokið yrði hið fyrsta við skoðun á kostum þess að flytja starfsemi Landhelgisgæslunnar á Suðurnes og að þær væntingar sem Suðurnesjayfirlýsing ríkisstjórnarinnar, frá 9. nóvember 2010, vakti um flutninginn næðu fram að ganga.
Flutningsmenn tillögunnar eru þau: Björgvin G. Sigurðsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Atli Gíslason, Oddný G. Harðardóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Eygló Harðardóttir, Róbert Marshall, Árni Johnsen og Margrét Tryggvadóttir.
Umræða um flutning stofnunarinnar í hentugt og rúmgott húsnæði á Ásbrú á Vallarheiði hefur staðið um nokkurra missira skeið. Að mati flutningsmanna fylgja fjölmargir kostir því að flytja starfsemi Landhelgisgæslunnar á Suðurnesin, nánar tiltekið á Ásbrú. Slæmt atvinnuástand á svæðinu þrýstir á að öllum ákvörðunum sem tengjast starfsemi þar sé hraðað sem kostur er. Miklu skiptir að tekin verði ákvörðun og óvissu um framgang málsins verði eytt.
Með flutningi Landhelgisgæslunnar á Suðurnes mundi ríkisvaldið sýna í verki stuðning við eflingu atvinnulífs þar auk þess að gera Landhelgisgæsluna að enn öflugri stofnun til hagsbóta fyrir landsmenn alla.
Möguleikar eru því fyrir hendi til að skapa mun betri aðstöðu en gæslan býr við á Reykjavíkurflugvelli og Landhelgisgæslan er nú þegar með aðstöðu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem hún nýtir m.a. fyrir sprengjueyðingarsveitina.