Tillaga um endurbættan miðbæ í Grindavík lögð fram
Tillaga að nýju miðbæjarskipulagi í Grindavík hefur verið lögð fram. Nái tillagan fram að ganga mun verða talsverð breyting á ásýnd miðbæjarins í Grindavík. Það er svæðið í kringum Festi sem er álitið sem miðbær í Grindavík en það var niðurstaða íbúafundar um málið síðla árs 2010. Grindavíkurbær fékk Atla Ráðgjafarfyrirtæki til að vinna að tillögu að nýjum miðbæ. Tillagan felur í sér nokkuð róttæka breytingu á götumyndinni á Víkurbraut og Ránargötu á milli Festis, Grindavíkurkirkju og Landsbankans. Með þessari breytingu á að reyna að tengja betur miðbæinn í kringum Festi og svo hafnarsvæðið.
„Það var boðað til íbúafundur í október 2010 þar sem kallað var eftir ábendingum og sjónarmiðum íbúa,“ segir Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Grindavíkur. „Meginniðurstaða þess íbúafundar var að miðbær Grindavíkur væri eitt hjarta með tvö hólf; annars vegar hafnarsvæðið og hins vegar svæðið í kringum Festi og þar sem stjórnsýslan er í dag. Við erum að ljúka fyrsta áfanga í þessari skipulagsvinnu sem er skipulag í kringum Festi og stjórnsýsluhúsið og í kjölfarið munum við svo vinna að skipulagi hafnarsvæðisins og gáttarinnar, Ránargatan tengir þessi tvö svæði saman.“
Megininntak deiliskipulagstillögunnar er að skapa umgjörð um lifandi miðbæ í Grindavík með blandaðri starfsemi verslunar, þjónustu og íbúða. Áhersla er lögð á að uppbygging falli vel að því byggðamynstri sem fyrir er. Gert er ráð fyrir að nýjar byggingar verði að mestu tveggja hæða hús en í stöku tilfellum verði heimilaðar þrjár hæðir sem og einnar hæðar byggingar. Einnig er lögð áhersla á að auka umferðaröryggi í miðbænum, draga úr umferðarhraða og gera gangandi og hjólandi vegfarendum hærra undir höfði.
Breytingar á gatnamótum Víkurbrautar og Ránargötu verða gerðar til að stuðla að betra umferðarflæði milli miðbæjar og hafnar. Víkurbraut og Ránargata munu gegna hlutverki aðalgötu og verður hámarkshraði á Ránargötu frá Víkurbraut að Túngötu 30 km/klst. Gert er ráð fyrir að þessi hluti Ránargötu fái annað yfirbragð með breyttum yfirborðsefnum, lýsingu, bílastæðum við götu o.fl.
Grindvíkingar hafa tíma til 15. apríl til að koma með athugasemdir við tillögunni. Grindavíkurbær lét útbúa kynningarmyndband þar sem ítarlega er greint frá tillögunni. Róbert segir að það ferli hafi heppnast vel og að reynt verði að hafa sama hátt á þegar farið verður í meiriháttar skipulagsbreytingar líkt og hér er um að ræða.