Tilkynning frá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og Veðurstofa Íslands funduðu ásamt Lögreglunni á Suðurnesjum og fulltrúa Grindavíkurbæjar kl. 03.30 í nótt vegna fjölda jarðskjálfta af stærðinni 3-5 á svæðinu frá Þorbirni að Fagradalsfjalli.
Jarðskjálftarnir finnast vel í Grindavík og fólk er skiljanlega órólegt. Líklegast er að skjálftarnir sem finnast núna í Grindavík séu afleiðingar spennubreytinga í jarðskorpunni, en ekki vegna tilfærslu á kviku.
Það er því ekki metið sem svo að þeir séu skammtímafyrirboði eldgoss. Áfram má búast við jarðskjálftum í nótt sem finnast vel í Grindavík.
Náttúruvásérfræðingar Veðurstofunnar og Almannavarnadeild fylgjast vel með þróun mála í nótt.
Vegagerðin og Lögreglan á Suðurnesjum eru á ferð og kanna hvort skemmdir hafi orðið á vegum. Staðan verður endurmetin í fyrramálið.