Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Tilbúið deiluefni
Miðvikudagur 23. janúar 2008 kl. 11:19

„Tilbúið deiluefni" og „pólitískur hráskinnaleikur"

Tillaga frá fulltrúum B-lista í bæjarstjórn Grindavíkur um félagsþjónustu við börn í Grindavík varð tilefni til orrahríðar milli minni- og meirihluta á bæjarstjórnarfundi í vikunni. Bókanir gengu á víxl þar sem meirihlutinn sakaði minnihlutann um að búa til deiluefni um viðkvæmt málefni. Minnihlutinn sakaði meirihlutann hins vegar um pólitískan hráskinnaleik. Þrjú fundarhlé voru tekin á meðan fundurinn stóð yfir.

Í tillögu B-lista er lagt til að bæjarstjórn Grindavíkur samþykkir að setja á laggirnar þriggja manna nefnd til að meta á hvern hátt sveitarfélagið geti komið til móts við foreldra langveikra barna.
Nefndin hefði það hlutverk að skoða og meta hvernig sveitarfélagið gæti komið til móts við fjölskyldur langveikra barna, m.a. með tilliti til heimilishjálpar, sálfræðiþjónustu við systkini og foreldra langveikra barna. Nefndin skoði hvort veita eigi heimild til að lækka fasteignagjöld meðan á veikindum barnanna stendur og breytingu á útsvari í samræmi við lækkun tekjuskattstofna sem skattstjóri veitir heimild af. Tengsl við skólayfirvöld með tilliti til m.a. leikskólavistunar barnsins eða systkina þess og úrræði við heimakennslu.
Gerð er tillaga um að í nefndinni verði 1 bæjarfulltrúi frá meirihluta og 1 bæjarfulltrúi frá minnihluta ásamt félagsmálastjóra.
Eftir 15 mínútna fundarhlé lagði meirihluti D og S lista fram tillögu þess efnis að tillögu B-lista yrði vísað til frekari vinnslu í bæjarráði. Í bókun sem fylgdi tillögunni segir að tillaga minnihlutans gangi ekki nógi langt og nái ekki til allra fjölskyldna og einstaklinga sem verða fyrir áföllum í sveitarfélaginu. Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum meirihlutans en fulltrúar minnihlutans sátu hjá.

Bæjarfulltrúar B- og F-lista lögðu í framhaldinu fram bókun þar sem þeir telja mikilvægt að skipað verði í nefnd samkvæmt tillögu B-lista eigi síðar en á næsta bæjarráðsfundi.

Í bókun sem meirihlutinn lagði fram í kjölfarið segir: „Hér er minnihluti B- og F-lista að búa til deiluefni um viðkvæmt málefni sem allir bæjarfulltrúar eru sammála um að þurfi að taka enn betur á og sinna vel í samfélaginu.“

Og fulltrúar B og F-lista svöruðu um hæl með eftirfarandi bókun:
„Bæjarfulltrúar B- og F-lista vísa þeim atriðum í bókun D- og S-lista um keisarans skegg til föðurhúsanna og telja að meirihlutinn hafi látið tillögu stefnumótunarvinnu um málefni langveikra barna og fjölskyldur þeirra snúast upp í pólitískan hráskinnaleik.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024