Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tíður hraðakstur á Sandgerðisvegi veldur íbúum þungum áhyggjum
Fimmtudagur 21. september 2006 kl. 14:49

Tíður hraðakstur á Sandgerðisvegi veldur íbúum þungum áhyggjum

Bæjarstjórn Sandgerðis vill betri löggæslu í bæjarfélagið „að gefnu tilefni“, eins og það er orðað í fundargerð frá síðasta bæjarstjórnarfundi. Þar segir jafnframt að sýslumaðurinn í Keflavík verði að bæta eftirlitið og koma því til leiðar að löggæslan verði gerð sýnilegri í bæjarfélaginu. Tíður hraðakstur á Sandgerðisvegi er það sem helst veldur bæjarbúum þungum áhyggjum. Bæjaryfirvöld ætla sjálf að standa straum af kostnaði við vegabætur þar sem ekki verður lengur búið við núverandi ástand.  Ökumenn á fleygiferð Það er ekki síst í ljósi þeirra hörmulegu slysfara sem núverið urðu í Sandgerði, sem þessi krafa verður háværari. Þeir atburðir virðast lítið hafa hreyft við sumum ökumönnum sem halda áfram uppteknum hætti með ábyrgðarlausri hegðun í umferðinni. Mörgum bæjarbúum er einfaldlega nóg boðið, samkvæmt því sem VF hefur borist til eyrna fá íbúum í Sandgerði.

Víkurfréttir höfðu spurnir af atviki fyrir skemmstu þar sem ökumaður á fleygiferð var nærri búinn að aka niður konu sem var að koma frá presti vegna áfallahjálpar sem hún þáði í kjölfar hörmulegs banaslyss við Sandgerði fyrir skemmstu og snert hefur bæjarbúa djúpt.

Barn konunnar hafði hlaupið yfir götuna þegar bílinn kom aðvífandi á fleygiferð. Konan ætlaði að gefa ökumanninum merki um að hægja sér en mátti þakka fyrir að verða ekki fyrir bílnum þegar hann æddi framhjá á ofsaferð.

Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri í Sandgerði segist í samtali við VF hafa haft spurnir af þessu atviki og það hafi verið sláandi að heyra, í ljósi þeirra kringumstæðna sem verið hafa undanfarnar vikur í bæjarfélaginu í kjölfar slyssins.  Bæjarfélagið ræðst í vegaframkvæmdir á eigin kostnað Sigurður segir vegabætur á Sandgerðisvegi vera aðkallandi til að auka umferðaröryggi og hafa bæjaryfirvöld sjálf ákveðið að ráðast í gerð hringtorgs á svokölluðum ofanbyggðavegi, sem á að draga úr umferðarhraða. Þar sem undirtektir hafi verið fremur dræmar hjá stjórnvöldum ætli sveitarfélgið sjálft að standa undir kostnaði á þessum vegabótum.

„Í sumar var malbikaður miðkafli vegarins með nýju malbiki sem er mjög dökkt. Í hvora áttina sem þú ert að fara þá virðist sem þú sért á breiðum og beinum vegi en skyndilega snarmjókkar hann. Talsverð bið var á því að vegurinn væri stikaður og það er ekki enn búið að mála hann. Þannig að þetta virkar mjög blekkjandi og vegurinn er beinlínis hættulegur svona“, segir Sigurður Valur.  Ekki hægt að búa við þetta „Nýja malbikinu sleppir þar sem  beygjurnar við Draugaskörðin byrja, einmitt á þeim stað þar sem all nokkrir ökumenn hafa misst stjórn á bílum sínum og endasenst út í móa.

Við vildum að haldið yrði áfram með þetta nýja malbik alveg niður að svokölluðum ofanbyggðavegi, sem við erum að byggja. Þá hefði þetta verið snökktum skárra. Við erum núna að berjast í því að fá að setja upp hringtorg við þennan ofanbyggðaveg til þess að ná niður ökuhraðanum því sumir eru að koma á fljúgandi siglingu alveg niður á Suðurgötu.

Okkur gengur svolítið erfiðlega að ná eyrum þingmannanna þannig við erum búnir að taka þá ákvörðun að ráðast sjálf í gerð hringtorgsins á eigin kostnað því það er ekki hægt að búa við þetta.  Við eigum fund með Vegagerðinni fljótlega þar sem við reynum að fá þá til að samþykkja breytinguna, það er fyrsta skrefið.

Hvað varðar aksturinn innanbæjar þá er alltaf sú umræða í gangi að setja eigi upp fleiri hraðahindranir. Því er miður er það nú þannig að sumir gefa í á milli hraðahindrana og eru komnir á fljúgandi ferð um leið og þeim sleppir. Hraðahindranir leysa ekki allan vandann, fyrst og fremst er það hugarfarsbreyting sem þarf að verða,“ segir Sigurður.

Sigurður gat þess ennfremur að áður fyrr hafi tveir lögreglumenn verið á vakt í Sandgerði. Reynslan sýni að staðbundin löggæsla þurfi að vera í sveitarfélaginu.  Á meðan löggæslan sé ekki sýnileg að staðaldri sé sú hætta alltaf fyrir hendi að óábyrgir ökumenn gangi á lagið og leiki lausum hala.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024