Tíðindalaust í Leifsstöð
Ekki var annað að sjá en allt væri með ró og spekt í Leifsstöð í dag þegar Fáfnismenn biðu þar eftir kollegum sínum sem von var á til landsins. Sú bið virtist að mestu árangurslaus því ekki var neina Vítisengla að sjá í komusalnum aðra en þrjár ungar konur sem sleppt hafði verið í gegnum landamæraeftirlitið. Þær hurfu svo á braut með Fáfnismönnum. Líklegt má telja að öðrum Vítisenglum hafi verið vísað frá en talsmenn lögreglunnar hafa ekki viljað veita neinar upplýsingar um gang mála í Leifsstöð í dag.
Mikill viðbúnaður er vegna komu Vítisenglanna. Í gær gaf dómsmálaráðuneytið út tilskipun um að víkja frá Schengen-eftirlitinu tímabundið og taka upp landamæraeftirlit. Allir sem sem koma hingað til lands þurfa því að sýna vegabréf og breytir þá engu þó þeir séu frá aðildarríkjum Schengen.
Gripið er til þessara ráðstafana vegna innflutningsveislu sem Fáfnir boðar til í nýjum bækistöðvum sínum í Hafnarfirði nú um helgina. Hafði aðildarfélögum Vítisenglanna verið boðið til veislunnar.
Í yfirlýsingu frá dómsmálaráðuneytinu segir að litið sé á atburðinn sem ógnun við allsherjarreglu og þjóðaröryggi.
----
VFmynd/Hilmar Bragi – Fáfnismenn sötruðu kaffi í rólegheitum á meðan þeir biðu í Leifsstöð í dag.