Tíðari sjávarflóð og landbrot veldur áhyggjum
Bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ með sautján verkefni í sjóvörnum á borði Vegagerðarinnar
Tíðari sjávarflóð og landbrot valda bæjaryfirvöldum í Suðurnesjabæ áhyggjum. Á síðustu árum er meira um þessi flóð þar sem stór svæði verða umflotin í sjó og land brotnar. Um helgina gekk sjór víða á land í Suðurnesjabæ með tilheyrandi tjóni. Bærinn Nýlenda á Hvalsnesi varð umflotinn á laugardagskvöld. Tjón varð á golfvellinum við Kirkjuból þar sem stórgrýti skolaði inn á brautir. Við Hafurbjarnarstaði varð talsvert landbrot. Á Garðskaga skolaði mörgum tonnum af þangi og grjóti langt upp á land og sama staða var með ströndinni frá Garðskaga og inn að Gerðabryggju. Á Stafnesi flæddi líka á land og yfir veginn að Stafneshverfinu. Víkurfréttir tóku hús á þeim Magnúsi Stefánssyni bæjarstjóra og Einari Friðrik Brynjarssyni deildarstjóra umhverfismála til að ræða sjávarflóð og viðbrögð við þeim.
„Við höfum haft miklar áhyggjur af þessari þróun sem við sjáum að er að eiga sér stað þegar það er háflóð og áhlaðandi vegna veðurs. Nokkur undanfarin ár erum við að sjá þessi sjávarflóð gerast og það mun ekki draga úr þessu,“ segir Magnús.
Hvað viljið þið sjá gerast og hvað hafið þið verið að gera?
„Vil viljum sjá áætlun til framtíðar og að það sé fyrirbyggjandi hugsun í þessu líka en ekki bara brugðist við þegar eitthvað gerist. Við eigum öll gögn um ströndina hjá okkur og getum auðveldlega búið til áætlun fyrir Vegagerðina fyrir næstu tíu eða fimmtán árin. Það hefur verið unnið módel af allri strandlengju Suðurnesjabæjar og við erum eina sveitarfélagið á landinu sem hefur gert þetta. Það var flogið með dróna með allri ströndinni. Allar hæðarlínur eru til staðar og upplýsingar um landbrot. Við getum séð sjóvarnir sem eru til staðar og hvort þær hafi verið að síga. Í módelinu er skráð allt landbrot aftur til ársins 1954 og það má sjá hvernig strandlínan hefur færst á þessum árum. Við höfum verið í miklu og góðu sambandi við Vegagerðina þar sem við höfum bent á þá staði sem við teljum að þurfi að huga að sérstaklega,“ segir Magnús.
Sautján staðir eða verkefni sem eru brýn
Einar Friðrik hefur lagt mikla vinnu í greiningu á þeim svæðum sem eru í mestri þörf fyrir varnir. Aðspurður hvar séu heitustu svæðin, segir Einar að þau séu víða í sveitarfélaginu.
„Síðasta haust sendi ég á Vegagerðina lista yfir sautján staði eða verkefni sem eru brýn og væri æskilegt að klára á allra næstu árum. Nokkur þessara verkefna eru inni í samgönguáætlun sem er nú í samráðsgátt stjórnvalda og fer væntanlega inn í þingið í haust. Sex af þessum sautján verkefnum hafa ratað inn á samgönguáætlun. Það þýðir það að Vegagerðin metur listann frá okkur sem ekki brýna þörf og þeir hafi aðra skoðun á hlutunum, eða hitt, að það sé ekki til nægt fjármagn. Ég hef ekki fengið almennileg svör við því hvers vegna við fáum ekki öll þessi verkefni inn, því við teljum og það er okkar mat og við erum með gögn sem eiga að sýna það að það sé brýn þörf,“ segir Einar Friðrik.
Suðurnesjabær leggur fram áætlanir og beiðnir til Vegagerðarinnar um ákveðnar lengdir á nauðsynlegum sjóvörnum og að sögn Einars eru þær mjög oft skornar niður og styttar. Þannig eru dæmi um að yfirvöld í Suðurnesjabæ hafi beðið um 400 metra varnargarð en aðeins fengið 120 metra samþykkta. Það er víða þannig að þótt svo verkefni séu komin inn á áætlun þá sé aðeins verið að framkvæma lítinn hluta í hverju verki, af því sem yfirvöld í Suðurnesjabæ telja að þurfi til að klára verkefnið.
Framarlega á landsvísu
Einar Friðrik segir að yfirvöld í Suðurnesjabæ séu framarlega á landsvísu og eru eina sveitarfélagið sem hefur látið vinna módel sem sýnir breytingar á strandlengjunni til lengri tíma vegna ágangs sjávar.
„Þetta módel er ný nálgun og við óskuðum eftir að Vegagerðin kæmi með okkur í þessa vinnu en ekki var vilji til þess. Vegagerðin hefur ekki skoðað þetta módel hjá okkur. Við erum með öll rök á bakvið þau verkefni sem við erum að óska eftir að farið sé í. Einar hefur unnið óhemju vinnu í þessum málum og skilgreint fram og til baka. Þetta liggur allt á borðinu,“ segir Magnús.
Samþykktar sjóvarnir við golfvöllinn
Flóðið við golfvöllinn að Kirkjubóli varð á svæði þar sem búið var að fá samþykktar sjóvarnir en framkvæmdinni hafði verið frestað að ósk golfklúbbsins fram á haustið eða þar til golftímabilinu lýkur. Ráðast átti í varnirnar síðasta vor. „En þá vill svo til að þetta gerist núna, að það kemur þetta veður og flóð og flæðir yfir einmitt á þeim stað þar sem við ætluðum að vera búnir að verja í vor,“ segir Magnús.
Varnargarður rofnaði ekki
Við Nýlendu á Hvalsnesi var búið að gera varnargarðinn að hluta til og hann stóðst alveg álagið. „Það er ekki rétt sem kom fram í fréttum að það hafi rofnað sjóvarnagarður. Flóðið fór yfir náttúrulegan kamb þar sem við höfum verið að vinna í að fá vörn. Ef sá varnargarður hefði verið kominn þarna hefði það breytt miklu með þetta flóð,“ segir Magnús jafnframt.
Á Garðskaga komu fleiri tonn af þara á land og kastaðist yfir garðinn. „Við vorum búnir að berjast í því að fá garðinn gerðan lengri í suðurátt frá gamla vitanum. Við viljum sjá garðinn á Garðskaga lengri, því sú vörn sem er fyrir hefur sigið og það er nauðsynlegt að bæta hana. Þetta er dæmi um það sem við erum að berjast í. Svo getum við talað um vörnina frá Garðskaga og inn að Nesfiski. Það er nauðsynlegt að halda henni við. Nokkrir kaflar þar voru lagfærðir síðasta vor. Það er gríðarlega mikilvægt að þessi sjóvörn sé í lagi með ströndinni,“ segir bæjarstjórinn.
Sannaði gildi sitt
Í framhaldi af flóðum sem urðu árið 2020 í Gerðum í Garði var ráðist í sjóvarnir frá Gerðabryggju og með ströndinni. Sá garður sannaði gildi sitt um helgina, því ef hann hefði ekki verið hefði flætt upp um allt. Sá garður hafði ekki verið á áætlun en var áríðandi viðgerð til að bregðast við aðstæðum. Sama á við um skarð sem lagað var í vor neðan við Jaðar í Garði, það skarð sást vel í módelinu og ef það hefði ekki verið lagað þá má búast við að flætt hafi heim að Jaðri. Þetta sýnir hvað það er nauðsynlegt að halda vörnum í lagi.
„Við erum búin að gera helling en betur má ef duga skal,“ segir Einar Friðrik og Magnús bætir við: „Það má sjá á þessum lista með sautján verkefnum sem eru aðkallandi og við teljum mikilvægt að verja. Fjármagn til sjóvarna á landsvísu er ekki nægt. Það þarf töluvert meira fjármagn í samgönguáætlun. Suðurnesjabær er sennilega það sveitarfélag sem hefur gengið hvað harðast fram í að fá verkefni inn á samgönguáætlun og það hefur gengið þokkalega, þó svo við hefðum viljað meira“.
Snörp viðbrögð
Sérfræðingur Vegagerðarinnar var í Suðurnesjabæ á mánudaginn og fór með Einari Friðriki á þá staði þar sem flæddi um helgina. „Það voru snörp viðbrögð hjá Vegagerðinni og við eigum almennt mjög gott samstarf við starfsmenn Vegagerðarinnar um málefni sveitarfélagsins,“ segir bæjarstjórinn.
„Markmiðið núna er að hraða þessari áætlun sem unnið er eftir og ná henni framar í tíma. Svo liggur fyrir annar listi þegar næst verður farið í endurskoðun á samgönguáætlun haustið 2024. Við berjumst áfram fyrir bættum sjóvörnum í Suðurnesjabæ,“ segir Einar Friðrik Brynjarsson að endingu.