Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tíð skemmdarverk í Reykjanesbæ
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 22. október 2020 kl. 13:05

Tíð skemmdarverk í Reykjanesbæ

„Mikið tjón af völdum skemmdarverka sem hafa kostað mikla peninga. Skrifast ekki einungis á krakka eða óvita,“ segir Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar.

Árlega verður Reykjanesbær fyrir miklu tjóni vegna skemmdarverka á umhverfinu og eru strætóskýli, bekkir og ruslatunnur tíð skotmörk. Á undanförnum vikum og mánuðum hafa skemmdarvargar fengið útrás víða í bæjarfélaginu og valdið miklu tjóni. „Svo virðist sem ekkert fái að vera í friði. Í sumar höfum við orðið fyrir miklu tjóni af völdum skemmdarverka sem hafa kostað mikla peninga og það er klárt mál að þetta skrifast ekki einungis á krakka eða óvita,“ segir Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar.

Meðal skemmdarverka í sumar má nefna að ærslabelgurinn við 88 húsið var ristur upp og stórskemmdur, hengirúmið við DUUS var skorið niður og brennt en þetta er að sögn Guðlaugs, búnaður sem er mjög vinsæll hjá yngri bæjarbúum og mikið notaður. „Lýsing við Strandleið er reglulega spörkuð niður, gler í strætóskýlum brotin í hverjum mánuði og sama á við um Frisbee-velli sem við höfum verið að setja niður. Um þarsíðustu helgi fann einhver sér þörf til að sparka niður og eyðileggja nýjan teljara sem við höfum nýverið sett upp á endurbættan stíg á rómantíska svæðinu sem svo er kallað. Bara þetta eina tjón er upp á tæpa milljón,“ segir Guðlaugur og bætir því við að ljóst sé að í tilfelli skemmda á teljaranum hafi engir krakkar verið að verki, því það þurfi töluverðan ásetning og kraft til að sparka þetta niður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Manni fallast eiginlega hendur þegar maður sér svona á göngu eða les á samfélagsmiðlum. Við erum að reyna gera bæinn skemmtilegri og bæta útlit hans og ásýnd með allskonar hugmyndum en verður svo bara lýti á bænum eftir skemmdarverk. Það er ósk mín að foreldrar og umráðamenn barna og unglinga geri öllum það ljóst að tjón vegna skemmdarverka er greitt úr okkar vösum, okkar útsvarsgreiðenda. Þessi peningar koma hvergi annars staðar frá,“ segir Guðlaugur.